03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (487)

43. mál, lækkun vaxta

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. N.- Ísf. kom hér fram í umr. alveg eins og flokksmaður hans, hv. þm. Borgf., lýsti honum hér einu sinni. Hann sagði, að hann hefði slíkt álit á sjálfum sér, að hann þættist einn vita allt, en vizkan væri þannig, að þegar til hennar ætti að grípa, væri hún runnin út í sand. Þetta hefir komið nokkuð berlega fram, þegar hv. þm. ætlaði að skýra það vandamál, af hverju háu vextirnir stöfuðu. Hann þóttist ekki vera í vafa. En ég held, að ástæðurnar séu allt aðrar en hann nefndi. Ég held, að þær liggi nokkuð í starfi hans sjálfs og þeirra manna, sem stjórnað hafa bönkum landsins. Hann mætti því bezt vita sjálfur, hversvegna vextirnir þurfa að vera svo háir. En honum kemur það betur að geta velt sökinni af sér á aðra.

Ég hefi alltaf verið þeirrar skoðunar, að bankarnir þyrftu á vaxtamismuninum að halda, til þess að vinna það upp, sem þeir hafa tapað við að lána út fé. Kemur mér það einkennilega fyrir sjónir, þegar menn, sem ættu að hafa einhverja nasasjón af þessum málum, eru að belgja sig út með þekkingarrembingi, en fara þó vísvitandi með rangt mál, til þess að reyna að fela sínar eigin vammir á þessu sviði.

Ég kippi mér ekkert upp við það, þó að hv. þm. N.-Ísf. titli mig sem „litla fjmrh.“, enda vænti ég þess, að þessi hv. þm. styðji mig til þess að verða „stóri fjmrh.“ á sínum tíma, en það vil ég þó segja hv. þm. N.-Ísf., að hann má breyta mikið innræti sínu, til þess að ég vildi þiggja stuðning hans til eins eða annars. (Forseti hringir). Eða vill hv. þm. N.Ísf. ekki gera upp reikningana að nýju og vita, hvort hann kemst þá ekki að annari niðurstöðu um orsakir hinna háu vaxta? Ég ætla, að hann mundi leiðast að þeirri niðurstöðu, að bankarnir yrðu að sýna meiri gætni og varfærni í lánum til áhættufyrirtækja og einna og annara gæðinga sinna en þeir hafa sýnt að undanförnu. Það kom a. m. k. fram í umr. hér í fyrra um Íslandsbankamálið, að sá banki hafði lánað miklar fjárhæðir til fyrirtækja, sem vitanlegt var um, að ekki gátu starfað á heilbrigðum grundvelli. Til þess að þetta gæti gengið, voru fengnir milligöngumenn og þeim goldið svo skipti þús. kr. fyrir milligöngu sína. Hygg ég, að hv. þm. Dal. sé kunnugt um það, að einum slíkum milligöngumanni voru goldnar 10 þús. kr. af vissum mönnum fyrir ómak sitt. Um skuldir bankans í Dalasýslu eru þess dæmi, að skipt var um tryggingar fyrir lánunum og þeir menn, sem eitthvað gátu ábyrgst, losaðir undan ábyrgðinni, en aðrir settir í staðinn, sem ekkert áttu. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að halda sér meira við efnið). Þetta er einmitt það, sem er aðalkjarni þessa máls. Bankarnir hafa lánað meira og minna ógætilega og verða að reyna að ná upp töpum sínum með vaxtamismuninum. Annars get ég látið máli mínu lokið, úr því hæstv. forseta kemur svo illa að heyra sagt frá hinum raunverulegu ástæðum fyrir hinum háu vöxtum. Geta þá hv. þm. búið sér til þær ástæður fyrir hinum háu vöxtum, sem þeim sýnist og bezt fellur saman við þeirra hugsanir.