03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (489)

43. mál, lækkun vaxta

Sigurður Eggerz:

Þetta er í fjórða skiptið, sem ég fæ leyfi hæstv. forseta til að bera af mér sakir. Stend ég nú upp til þess að mótmæla þeim aðdróttunum hv. þm. V.-Húnv., að sýnd hafi verið hlutdrægni um lán í Dalasýslu, meðan ég var bankastjóri við Íslandsbanka. Sannleikurinn er sá, að Íslandsbanki lánaði lítið sem ekkert fé til manna í Dalasýslu, og þær skuldir, sem bankinn átti þar, eru svo tryggðar, að ég hygg, að það verði ekki gagnrýnt. Hinsvegar skal ég geta þess, að flestir þeir menn í Dalasýslu, sem ég hefi útvegað lán, hafa fengið þau í Landsbankanum.