03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (493)

43. mál, lækkun vaxta

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég tók það fram áðan, að auðvitað væri það þýðingarmikið atriði í þessu sambandi, ef hægt væri að útvega bönkunum vaxtalagt rekstrarfé. Hv. þm. Vestm. segir, að stj. útvegi bönkunum svo dýrt rekstrarfé, að þeir geti ekki lækkað vextina. En nú vil ég spyrja hann: Hver eru þessi dýru lán, sem stj. hefir útvegað bönkunum? Ekki er hægt að kenna núv. stj. um enska lánið, sem Íslandsbanki fékk 5,6 millj. af og Landsb. 1,7 millj. Ekki hefir núv. stj. heldur útvegað bönkunum dýr lán annarsstaðar frá, því þau lán, er bankarnir hafa fengið síðan, hafa ekki verið svo tiltakanlega dýr. Það er því enska lánið, sem fyrst og fremst veldur hinum háu vöxtum, ef þeir stafa af of dýru rekstrarfé. Því vil ég spyrja aftur: Hvaða lán hefir núv. stj. útvegað bönkunum, er valdið geti hinum háu vöxtum? (ÓTh: Stj. hefir lokað dyrunum fyrir lágum vaxtakjörum erlendis). Já, einmitt það. Við skulum segja, að svo sé. En hvernig stendur á því, að bankarnir notuðu sér ekki það ódýra lánsfé, sem hv. 2. þm. G.-K. segir, að hafi fengizt 1929, til að lækka vextina? Ég veit, að það er gamla sagan um framkomu stj. í Íslandsbankamálinu, sem fyrir hv. 2. þm. G.-K. vakir. En hún var ekki komin til fyrr en 1930.

Nei, ég held, að það sé ekki hægt að kenna núv. stj. um það, að hún hafi hækkað vextina með því að láta bankana hafa dýrt rekstrarfé. Ég veit ekki betur en að Útvegsbankinn hafi fengið vaxtalaust rekstrarfé hjá ríkinu, og af fé því, er Landsbankinn fékk hjá þinginu 1928, hafa verið greidd 6%, og það geta varla talizt drápsklyfjar. (MT: Það voru engir vextir greiddir 1929).

Allir heilvita menn sjá og vita, að það eru skuldatöp bankanna, sem valda hinum háu vöxtum, hvort sem þau hafa orðið af eðlilegum eða óeðlilegum ástæðum.