06.03.1931
Neðri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (498)

81. mál, sala viðtækja

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég sé, að fram er komin önnur till. svipaðs efnis, er mér var ókunnugt um, þegar ég afhenti þessa till. til prentunar. Það ætti að vera óþarfi að hafa mörg orð um þessa till. Það er ljóst, að útvarpið kemur ekki að tilætluðum notum, ef útvarpstækin, svo dýr sem þau eru, fást aðeins gegn greiðslu á öllu andvirðinu út í hönd, en ekki með afborgunum. Fjölda fólks er gert það öldungis ókleift að eignast tæki með því fyrirkomulagi, sem nú er, en með því að selja tækin gegn afborgunargreiðslum væri bætt úr þessu til stórra muna. Er vafalaust, að slíkt fyrirkomulag myndi og fjölga útvarpsnotendum mjög og tekjur útvarpsins aukast við það. Og almennt gagn verður eigi að þessu menningartæki nema sem allra flestum sé gert sæmilega auðvelt að eignast viðtækin. — Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.