13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (505)

85. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Till. þessi lá fyrir þinginu í fyrra. Er hún loks var tekin til umr., eftir hinar mestu hörmungar, úrskurðaði forseti (JörB) hana fellda, þótt 12 greiddu atkv. með, en enginn á móti. Þar sem allmikið var um hana rætt í fyrra, er óþarfi að tala mikið að þessu sinni.

Þessi þáltill. fer fram á það, að skilja beri 14. gr. 5. lið 1. um varnir gegn berklaveiki svo:

Í fyrsta lagi, að ríkisstj. sé jafnan skylt að semja fyrirfram fyrir heilt eða hálft ár við sjúkrahús um kostnað af dvöl sjúklinga,

í öðru lagi, að kostnaður á Vífilsstaðahælinu sé lagður til grundvallar við samningana, en þó tekið fullt tillit til alls aðstöðumunar,

og í þriðja lagi, að ef ekki semst, þá megi ríkisstj. ákveða hámark daggjalda og tilkynna með minnst 6 mán fyrirvara, enda sé þá og miðað við kostnað á Vífilsstöðum.

En ástæðan til þess, að ég flyt þessa þáltill., er sú, að hæstv. stj. hefir þverbrotið þessi lagafyrirmæli, eins og nú skal greina:

Hæstv. stj. hefir ákveðið daggjöld án þess að leita samninga við sjúkrahúsin, neitað að greiða fyrir ljóslækningar á öðrum stöðum en í Kristnesi, Vífilsstöðum og Reykjavík, ákveðið daggjöld eftir á og ekki lagt Vífilsstaði til grundvallar,

né tekið tillit til mismunandi aðstöðu á ýmsum stöðum á landinu.

Afleiðingin hefir svo orðið sú, að nokkrum hluta berklavarnakostnaðarins hefir verið velt yfir á sjúkrahúsin, og þau síðan neyðzt til þess að leggja viðbótardaggjald á sjúklingana eða sveit þeirra.

Þetta eru skýlaus brot á berklavarnalögunum, sem sjálfsagt er að fyrirbyggja, að hægt sé að endurtaka.

Hvað ljóslækningastofunum viðvíkur, þá hefir það við engin rök að styðjast, að ríkisstj. geti ákveðið, að aðeins á fáum, vissum stofum sé sjúklingum borgaður styrkur. Hæstv. stj. hefir sjálf verið því fylgjandi, að sjúkrahús séu styrkt til þess að fá sér ljóslækningatæki, og þar með viðurkennt nauðsyn þeirra og gagnsemi í höndum hlutaðeigandi sjúkrahúslækna. Er því alveg meiningarlaust að neita að greiða lækningastyrk við þau. Og það myndi leiða til þess, að menn yrðu að eyða ærnu fé og tíma til þess að sækja í fjarlæg sjúkrahús, eða fara á mis við lækningarnar með öllu.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum nú, en vísa til umræðna og grg. á síðasta þingi. Legg ég til, að till. verði vísað til 2. umr. og allshn.umr. lokinni.