06.03.1931
Neðri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (514)

86. mál, sala viðtækja og lækkun afnotagjalds

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þessi till. er sama efnis og sú, sem næst er á undan á dagskránni (Sala viðtækja). Við flm. vissum ekki hvor af öðrum, því að annars hefðum við sennilega flutt till. í sameiningu. Þessi till. okkar er nokkru fyllri en hin að því leyti, að hún gengur út á að fá afnotagjaldið lækkað frá því, sem nú er. Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, á fólk erfitt með að eignast tækin, sem oftast kosta kringum 300 kr., enda þekki ég mörg dæmi þess, að fólk hefir orðið að vera án þeirra fyrir þá sök. Ef gjaldfrestur væri veittur, þá yrði mörgum efnaminni gert kleift að eignast tækin, og yrði það því til mikilla bóta frá því, sem nú er. Sama er um lækkun afnotagjaldsins að segja.

Það er óþarft að fylgja þessu sjálfsagða máli úr hlaði með mörgum orðum, og skal ég einungis leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til allshn.