16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (530)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hefi fyrst getað komið nál. frá mér nú á þennan fund. Eins og þar er tekið fram, er ég á móti frv. Fyrir n. lá annað frv. um tekju- og eignarskatt, frá hv. þm. Ísaf. fyrir hönd Alþýðuflokksins. Því frv. fylgdi ég, þegar bæði þessi frv. voru til umr. í n. En þar sem meiri hl. n. var á móti því frv., þá mun annarhvor okkar hv. þm. Ísaf. bera fram brtt. við þetta frv., sem eru í samræmi við hitt frv. Nú ætlaði hv. þm. Ísaf. að bera þessar brtt. fram, en honum hefir ekki unnizt það nógu fljótt, svo að þær geta ekki komið fyrr en við 3. umr., og því býst ég við, að þá verði frá okkar hálfu aðalumr. um þetta mál.

Það, sem ég hefi aðallega á móti þessu frv., er það, hve litlar breyt. það gerir frá núgildandi lögum í þessu efni. Að vísu hækkar persónufrádrátturinn lítið eitt, en þar á móti kemur aftur það, að tekju- og eignarskatt og útsvör er leyft að draga frá aðeins að hálfu leyti. Þar synir það sig, að þar hafa tveir menn og tveir flokkar unnið að, sem hafa verið ólíkrar skoðunar og haft síðan helmingaskipti á sannfæring sinni. En það getur ekkert mælt með því að draga helminginn frá. Annaðhvort á að draga allt frá eða þá ekkert.

Viðvíkjandi skatta-„skálanum“ vil ég segja það, að ekki sízt hér á landi, þar sem tollar eru mjög svo háir, sem almenningur, sérstaklega fátæka fólkið og þeir, sem stór heimili hafa, verða aðallega að bera, þá sýndist, að eignarskatturinn gæti verið allmiklu hærri. Þær till., sem ég og hv. þm. Ísaf. hofum borið fram um það, hefðu gert það að verkum, að ríkissjóður hefði fengið meira en 1 millj. kr. tekjuaukningu af þeim tekjustofni, og hana hefði svo mátt nota til þess að lækka eitthvað þá tolla, sem þyngst koma niður á fátæklingunum.

Þá er annað deiluatriðið, skattar af hlutafélögum. Þetta frv., ef það verður að logum, veitir þeim félögum mikla vernd, sem eru öflug og eiga mikinn höfuðstól. Hinum félögunum er aftur á móti gert erfitt fyrir, sem lítinn hafa höfuðstólinn, eru ung og hafa litlum sjóðum safnað. Ef menn vilja leyfa takmarkaða ábyrgð og hlutafélagsform, sem engin ástæða er til að amast við, þá er ekki rétt að hlífa þeim félögum helzt við sköttum, sem elzt eru og sterkust, en láta skattana koma þyngst niður á þeim félögum, sem eru ung og eiga oft örðugt uppdráttar. Af hálfu okkar jafnaðarmanna er því haldið fram, að hér eigi að hafa svipaða aðferð við hlutafélögin og við einstaklingana.

Hv. þm. Ísaf. kom með þá till., að bæjarsjóðir gætu lagt sérstakt gjald ofan á tekju- og eignarskattinn, en lækkað útsvörin að sama skapi. Það mundi gera álagninguna fljótari og innheimtuna haganlegri. En meiri hl. hefir ekki í þessu frekar en öðu tekið tillit til annara hugsana en þeim hefir sjálfum komið í hug. Ég vil nú, eins og ég hefi áður gert við annað tækifæri, þar sem fjárhagsmál voru til umr., lýsa undrun minni yfir því, að þessir flokkar, Framsókn og íhald, sem vilja báðir ná völdunum, skuli geta í svona deilumali komið sér alveg saman eins og einn flokkur. Það virðist yfirleitt, að baráttan sé um völdin og um einstaka menn, en ekki um stefnur.

Ég skal lýsa því yfir viðvíkjandi brtt. hv. þm. Dal., að ég mun greiða henni atkv., en viðvíkjandi brtt. meiri hl. fjhn. skal ég geta þess, að við 3. umr. mun ég bera fram aðra brtt. um það atriði, sem hún fjallar um.