18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (536)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Magnús Jónsson:

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að ég held, að fundurinn sé tæplega lögmætur, og því hálfhlægilegt að vera að halda honum áfram. (Forseti: Fundurinn er lögmætur). Og mér finnst það einkennilegt, að farið skuli vera að halda kvöldfundi, er svo skammt er liðið af þingi, svo að ekki gefst tími til að ræða málin í nefndum.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. dm. á því, að ég ber nú fram frv. um afnám einkasölunnar á viðtækjum. Og ég vil benda á það, að það er hægt að leysa öll vandkvæði á útbreiðslu útvarpsins á þann einfalda hátt að gefa verzlunina frjálsa. Þá ætti að vera lokið öllu því stríði og striti, sem ýmsir hv. þm. leggja á sig til þess að greiða fyrir útbreiðslu útvarpsins.

Og ég vil ennfremur minna á það, þegar greidd eru atkv. um till. sem þessar, að ekki er hægt að lána útvarpstækin, nema ríkissjóður leggi einkasölunni til rekstrarfé. Væri ekki nokkru nær að lofa einstaklingum að verzla með viðtækin og láta þá leggja fram rekstrarféð heldur en að vera að ofbjóða ríkissjóðnum?

Það er vitanlegt, að viðtækjaverzlunin er nú í mjög slæmu standi og stendur mjög fyrir útbreiðslu útvarpsins.

Mér þætti það æskilegast, að þessari umr. væri frestað, og málinu vísað til hv. menntmn. Mér finnst það harla einkennilegt, að hrúga öllum málum í allshn., en láta aðrar n., sem eru prýðilega skipaðar til þess að fast við flest þessara mála, sitja auðum höndum. Það eru blátt áfram engin vinnubrögð. Og það færi einmitt vel á því, að menningarmáli eins og þessu væri vísað til menntmn. Ég mun þó ekki setja mig á móti því, að till. gangi til allshn., ef þær till, sem samhliða eru þessari, eru komnar þangað á undan.