26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (562)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Baldvinsson:

Ég hefi ekki miklu að svara hv. 3. landsk. Hann var nú miklum mun vægari í árásum sínum á kaupgjaldið en í fyrri ræðu sinni. Hefi ég nú aðeins ástæðu til að andmæla þeirri hugmynd að fara að flytja inn verkafólk frá útlöndum, til þess að komast af með að greiða lítið kaup.

Ég get að vísu vel skilið þetta. Erlendis er atvinnuleysi mikið sumstaðar, og þess vegna er hægt að fá þaðan ódýrt fólk yfir stuttan tíma. En hv. 3. landsk. veit það eins vel og ég, að flest lönd reyna að verja sig gegn þessum innflutningi. Og þau lönd, sem ekki hafa gert það, fá varla undir risið. Danir, sem hafa undanfarið haft ódýrt fólk frá Póllandi, vegna þess, hve ástandið þar er illt, eilíft stríð og stjórnarbyltingar, hafa nú takmarkað þennan innflutning upp á síðkastið, vegna atvinnuleysis í Danmörku. Og alstaðar annarsstaðar heyrir maður sömu söguna um takmarkaðan innflutning til landanna, og meira að segja útlendingum er víða vísað úr landi. Hefi ég nýlega heyrt, að Bandaríkin ætli að fara að vísa úr landi öllum þeim, sem þar eiga ekki borgararétt. Sama er að segja um Frakkland. Það eru því fullkomin Lokaráð, sem hv. 3. landsk. vill láta grípa til, séð frá hagsmunum þjóðarinnar í heild sinni.

Hv. 3. landsk. lét svo um mælt í seinni ræðu sinni, að ríkið yrði að stöðva allar framkvæmdir vegna yfirstandandi kreppu. Þetta eru athyglisverð ummæli, ef hv. 3. landsk. talar þarna fyrir hönd síns flokks. Vil ég því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., að þessu gefna tilefni, hvort það sé ákveðið, að ekkert verði framkvæmt af því, sem nú er í fjárlögum. Það er mikilsvert atriði á þessum krepputímum, ef ríkið stöðvar allar þær framkvæmdir, sem það hefir með höndum, því að það hefir helzt ráð á að leggja út í framkvæmdir, þó að illt sé í ári. — Undanfarið hefir verið um of gert að opinberum framkvæmdum, og hefði verið hentara að geyma sumar þeirra til lakari atvinnutíma, eins og þeirra, sem nú standa yfir. Vil ég í þessu sambandi minna á till. okkar jafnaðarmanna um jöfnunarsjóð, þar sem farið var fram á að geyma ágóðann frá góðu árunum til krepputímanna.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði um kaupgjaldsmálin, hefi ég ekki mörgu við að bæta það, er ég áður sagði. Þó vildi ég upplýsa það, að í þau 3 ár, sem sjómannasamningarnir frá 1925 stóðu, lækkaði kaupið meira en dýrtíðin í landinu. Sá raunverulegi kostnaður við að lifa minnkaði ekki að sama skapi og kaupið var lækkað. Orsökin var sú, að við útreikning dýrtíðarvísitölunnar voru ekki allar nauðsynjar teknar með, eða ekki á þann hátt, að það sýndi rétta mynd af virkilegum útgjöldum manna.