26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (563)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. landsk. þm. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð, með því, sem hann sagði um kaupgjaldið undanfarin ár. Það virtist svo, sem hann ætlaði að fara að gefa sögulegt yfirlit um þessi mál, en yfirlitið var svo stutt, að ekki var hægt að festa fingur á því. Hv. þm. var að tala um það, að stj. hefði gert glundroða í samningana frá 1925, þannig að kaupgjaldið hefði breytzt frá þeim samningum vegna íhlutunar stj. Ég býst við, að hv. þm. eigi hér við verkfallið, sem gert var á skipum Eimskipafélagsins í ársbyrjun 1929. Var þá fyrirsjáanlegt, að allar samgöngur út um land og til útlanda mundu stöðvast, ef ekki yrði úr samkomulagi. Þetta var á þeim tíma árs, þegar hættulegast er, að samgöngur okkar teppist. Er enginn maður fær að bera ábyrgðina á því, að Norðurland allt sé bjargarlaust, ef hafís kynni að tálma skipaferðum. En hvað um það? Deilan kom upp, og stjórn Eimskipafélagsins virtist fremur kjósa að stöðva skip félagsins en að ganga að kröfum sjómannanna eða þeim miðlunartill., sem fram höfðu komið. Þá bauðst núv. stj. til þess að hækka styrkinn til félagsins um 11 þús. kr., með því skilyrði, að samningur tækjust, og skyldi sú skipan standa þangað til í apríl 1930. Eftir þennan tíma hefir Eimskipafélagið greitt sama kaup og samið var um 1929. Stjórn félagsins hefir auðsjáanlega ekki séð sér fært að lækka kaupið aftur, eins og henni stóð þó opið með því að hefja nýja kaupdeilu.

Hv. 1. landsk. sagði, að eftir þetta hefði kaupgjaldið hækkað á öðrum sviðum. Er það að vísu rétt, en stj. átti þar engan hlut að máli. Kaupgjaldið hækkaði síðastl. vor fyrir tilstilli Alþýðuflokksins, án þess að til nokkurrar deilu kæmi, því að atvinnurekendur gengu þegjandi að kröfum verkamanna. Sú kauphækkun var því landsstj. með öllu óviðkomandi.

Umr. um þetta mál hafa farið nokkuð á víð og dreif, að því er virðist. Skal ég ekki vera að lasta það. Ég tel víst, að þessari till. verði vísað til n. og athuguð þar. Gefst þá tækifæri síðar til að ræða þetta mál frekar.

Hv. 2. landsk. spurðist fyrir um það, hvort verklegar framkvæmdir yrðu stöðvaðar á yfirstandandi ári. Ég skildi hann svo, sem hann ætti ekki við framkvæmdir ársins 1932. Get ég ekkert um þetta sagt að svo stöddu, því að enn hefir ekki verið tekin nein ákvörðun um þetta. Svo mikið er þó víst, að opinberar framkvæmdir verða miklu minni nú en undanfarið.