10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að fjárhæð sú, sem um er rætt til bókasafna prestakalla, er ekki meiri en svo, að hún nægi aðeins til öflunar rita guðfræði- og trúfræðilegs efnis, enda er ekki til meira ætlazt, nema þá skáldrita, er kunna að hafa sérstakt trúfræðilegt gildi. Þess vegna er það sjálfsagt, að þessi söfn verði sérstæð og miðuð við sérþarfir presta.

Sá styrkur, er sýslubókasöfn og önnur almenn bókasöfn hafa notið frá ríkinu, hefir verið allt of lítill. Mun ég innan skamms leggja fyrir hv. menntmn. till. um þetta efni, þar sem ég legg til, að opinber styrkur til almennra bókasafna verði hækkaður að mun. Víða hér á landi hagar þannig til vegna strjálbýlis og slæmra samgangna, að sýslubókasöfnin eru ekki fullnægjandi. Þarf því að koma á stofn hreppsbókasöfnum, er láni út bækur eftir föstum reglum. Í Norður-Ameríku t. d., þar sem þessum málum er komið í sæmilegt horf, er veitt til alm. bókasafna fé árlega, sem svarar 1 kr. á hvern íbúa. Það mundi verða hér hjá okkur um 100 þús. kr. Um svo hátt tillag gæti vitanlega ekki verið að ræða hér á landi. Þá má geta þess, að undir hin væntanlegu bókasöfn prestakalla muni renna fleiri stoðir en styrkur úr ríkissjóði. Prestarnir mundu væntanlega gefa þeim margar góðar bækur guðfræðilegs efnis.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala um það, að óviðkunnanlegt væri að þröngva prestum til að geyma þær bækur, sem þeir alls ekki vildu þola í sínum húsum. Ég get fallizt á það, að ekki sé rétt að þröngva prestum til slíks, en hinsvegar er ég fullviss um, að það mundi örsjaldan koma fyrir.

Nefndin sér ekki fært, eins og ég hefi áður sagt, að leggja með hærri styrk til bókasafna prestakalla en 4 þús. kr. Mun hæfilegt að skipta þeim styrk milli 50 prestakalla á ári. Ef fleiri væru styrkt, fengi hvert þeirra of lága upphæð, til þess að verulegu gagni yrði. (MG: Hver á að geyma söfnin, þegar prestaskipti verða?). Um það vantar ákvæði í frv., sem bætt verður inn í það við 3. umr.