12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (570)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta þann villandi samanburð, sem hv. 2. þm. S.-M. gerði á launum presta og lækna. Mig furðar á því, að hann skuli vera svona ófróður í þessum málum. Hann segir, að prestar séu lengst allra embættismanna að komast upp í sitt launahámark, 15 ár, en læknar 10 ár. En þetta er ekki rétt. Læknar eru 15 ár að komast upp í sitt hámark, eins og prestar. Ég get lesið það upp fyrir hv. þm., ef hann vill. Byrjunarlaun lækna eru 2500, 3000 og 3500 kr., en launin hækka eftir hver 5 ár í þessari röð um 400, 300 og 300 kr. upp í 3500, 4000 og 4500 kr. Sóknarprestar hafa aftur á móti 2000 kr. byrjunarlaun, sem hækka á hverjum 3 ára fresti um 200 kr. upp í 3000 kr. M. ö. o., læknar komast upp í sitt launahámark á 15 árum og prestar líka.

Þá sagði hv. þm., að prestar, sem hefðu í byrjunarlaun 2000 kr., fengju 600 kr. í dýtíðaruppbót og aukatekjur um 600 kr., eða alls 3200 kr. Aftur sagði hann, að læknar, sem hefðu 4000 kr. í byrjunarlaun, hefðu 5200 kr. með dýrtíðaruppbótum og 6000 kr. í aukatekjur. Þessi samanburður er villandi, því að þarna hefir hv. þm. tekur þau lægstu laun, sem prestar hafa, en með því hæsta, sem læknar hafa. Það er ekki nema í beztu læknishéruðunum, að aukatekjurnar komast upp í 6000 kr.

Yfirleitt var allur þessi samanburður hjá hv. þm. nokkuð villandi. Ég vil ekki segja, að þar hafi komið fram vísvitandi hlutdrægni, því að ég á því ekki að venjast hjá þeim hv. þm. Annars voru það nokkuð einkennileg rök, sem hann kom með. Hann viðurkenndi það fyllilega, að laun embættismanna væru of lág. Samt vill hann ekki samþ. þessa till., sem fer þó fram á að hækka þau lítið eitt. Lágt launaða embættismenn munar tiltölulega meira um að fá 300–400 kr. viðbót á laun sín en þá, sem hátt launaðir eru munar um nokkuð hærri upphæðir. Það er því ekki rétt hjá hv. þm., að viðurkenna, að embættismenn hafi of lág laun, en vilja samt ekki samþ. þessa till., sem fer fram á hækkun, og koma svo ekki sjálfur með neina till. til bóta.