12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (572)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það eru tvö atriði hjá hv. frsm. minni hl., sem ég þarf að taka til athugunar. Fyrst er aðstaða hans til þeirra lágt launuðu. Það gekk í gegnum ræðu hans, að þessi till. yrði þeim ekki til mikilla hagsbóta, sem lág hafa laun, heldur aðeins þeim, sem hærri laun hafa. Það er rétt, að sá, sem hefir 5 þús. kr. í árslaun, fær hærri dýrtíðaruppbót en sá, sem hefir 3 þús. kr. laun. En þann, sem hefir úr litlu að spila, munar um þá viðbót, sem hann fær, ef till. verður samþ. Í samræmi við þessa skoðun sína hefði hann getað borið fram þá brtt., að þeir, sem hefðu t. d. 4 þús. kr. laun og þar yfir, fengju dýrtíðaruppbótina greidda eftir reikningi hagstofunnar, en hinir fengju áfram eftir sama taxta og verið hefir. Ég er ekki að segja, að ég hefði fylgt þeirri till., því að hún hefði verið handahóf, eins og þetta er í raun og veru allt og hlýtur að verða, ef launalögin verða ekki endurskoðuð. Ég held, að hv. þm. sé ófús að ganga að því verki, sérstaklega vegna kostnaðarins, því að hjá því yrði auðvitað ekki komizt að hækka eitthvað við þá lægst launuðu.

Hv. frsm. talaði um presta sem þá lægst launuðu. Það er satt, þeim er þörf á launauppbót, miklu meiri þörf en að nokkrir þeirra fái ferðastyrk. En það er ennþá meiri þörf á að bæta launakjör annara manna, sem eru ennþá verr launaðir en þó prestarnir. Það eru póstmenn og símamenn. Byrjunarlaun þeirra eru 1600 kr. og geta ekki komizt nema rétt yfir 2000 kr. Þetta eru svo lág laun, að ekki verður hjá því komizt að bæta úr. Af þessum mönnum er líka tekið, ef till. er felld, og dýrtíðaruppbótin yrði eins og hagstofan hefir reiknað hana út. Ég held, að þetta standi eitthvað öfugt í höfðinu á hv. frsm. minni hl., því að í raun og veru vill hann hlynna að þeim, sem lægst hafa launin. Það má ekki láta launalækkun koma niður á þeim lægst launuðu, þó að með því sé hægt að ná sér niðri á þeim, sem hærri hafa launin. Það er engin bót fyrir þann, sem lágu launin hefir og missir 200 kr., þó að hann viti, að einhver annar missi 400 kr.

Þá er síðara atriðið, og það er grundvöllurinn undir þessu. Þessi miðun við dýrtíð hefir reynzt illa, þegar fram liðu stundir. Það getur verið, að fyrir eitt ár megi finna sæmilegan grundvöll með því að miða við dýrtíðina. En svo ýmist hækka vörur eða lækka og eru ekki alltaf látnar gilda í útreikningnum eftir því sem þær eru notaðar. Í útreikningunum er það t. d. ekkert vit að láta einhverja vörutegund, sem að vísu er nauðsynleg, gilda jafnt og húsaleigu, því að það er lífsnauðsyn hverjum manni að hafa þak yfir höfuðið. Þess vegna er þessi grundvöllur skakkur og sýnir ekki, hvað það í raun og veru kostar að framfleyta fjölskyldu.

Hv. þm. sagði, að þessi grundvöllur væri ekki fjarlægari nú en hann hefði verið 1928. Það má vel vera, en ég held, að hann sé alveg jafnfjarlægur nú og þá. Ég vona, að það sé ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að verð á vörum okkar væri nú orðið fast. Það væri háskalegt fyrir okkur, þar sem allar okkar vörur standa lágt. Maður hefir, held ég, leyfi til að vona, að þetta komist í betra horf áður en langt líður, en stafi aðeins af þeirri kreppu, sem hefir verið nú um hríð í mörgum löndum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það voru aðeins þessi tvö atriði, sem ég vildi minna á.