12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (577)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. 3. landsk. hafa víst brugðizt vonir, þegar hann sá okkur hv. 1. landsk. skrifa undir nál. saman. Virðist hann telja það allviðsjárverðan samdrátt, og því fór hann nú í opinbera bónorðsför til hv. 1. landsk. Hann fékk að vísu hálfgert hryggbrot, eða hv. 1. landsk. vildi a. m. k. ekki gefa honum mikið undir fótinn svona fyrir allra augum. Þó býst ég við, að þessir hv. samþm. mínir, hv. 1. og 3. landsk., séu sammála í fleiri málum heldur en ég og hv. 1. landsk., svo að hv. 3. landsk. þarf ekki að vera mjög áhyggjufullur út af þessu.

Annars held ég, að hv. 3. landsk. hafi ekki komið fram með neitt nýtt nú, sem ekki kom fram við fyrri umr. (JónJ: 5% lækkunina). Það er nú svo, að þegar maður athugar útreikninga hagstofunnar á vöruverði, sést, að suma mánuði fer það hækkandi og aðra lækkandi. Þó að útreikningarnir sýni, að vöruverð hafi eitthvað lækkað einn mánuðinn, sannar það ekki, að dýrtíðin verði yfirleitt minni á öllu því ári en áður; vel getur verið, að næsta mánuð hækki vörur að mun.

Þá var hv. 3. landsk. að sarga um kauplækkun almennt. En ég svara honum því, er ég hefi áður bent honum á, að það er nauðsynlegra að bæta atvinnuvegina og geri framleiðsluvörur verðmætari heldur en að lækka kaupið, því að það verður ekki til gagns fyrir landsmenn í heild sinni. Það er auðvelt fyrir hv. 3. landsk. að koma og segja, að kaupgjald eigi að lækka, en hann á eftir að rökstyðja, að það sé réttmætt. Það er alltaf hægt að slá fram órökstuddum fullyrðingum.

Að öðru leyti vil ég vísa til þess, sem um þetta var sagt við upphaf þessarar umr.

Þá kem ég að hv. 2. þm. N.-M. Hann er þeirrar skoðunar og mun hafa verið á undanförnum þingum, að þessi leið sé óheppileg. En það er hv. þm. sjálfum að kenna, og ef til vill mér líka; það má kenna það öllum þm., en fyrst og fremst er það þó að kenna hæstv. stj., að hún skuli ekki hafa látið endurskoða lögin um laun embættismanna: Þangað til það verður gert, erum við neyddir til að fara þessa leið.

Mér skildist á frsm. minni hl., hv. 2. þm. S.-M., að hann vildi bæta launakjör lægst launuðu embættismannanna, en þó vill hann draga af þeim hluta af þeirra lágu launum og láta þá ekkert fá í staðinn. En það er óneitanlega hart aðgöngu fyrir starfsmennina, og ekki er ég viss um, að það borgi sig fyrir ríkið. Ef starfsmönnunum væri synd svo mikil rangindi, myndu þeir varla starfa með glöðu geði fyrir ríkið.

Endurskoðun launalaganna er mikið verk, og verður varla með sanngirni krafizt þess af þm., að þeir geti unnið að þeirri löggjöf á þingi.

Mér virðist það góð uppástunga, sem fram hefir komið, að skipa mþn. til að athuga málið og láta einhverja af embættismönnum taka þátt í þeim störfum. Það er erfitt að halda þessu svona svífandi til lengdar, en meðan ekkert er aðhafzt, er þetta, sem hér er farið fram á, betra en að draga af kaupi þeirra, sem allir virðast viðurkenna, að eru of lágt launaðir.