14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (582)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð út af því, sem hv. 1. landsk. sagði. það, sem hv. þm. tók fram nú, er alveg í samræmi við það, sem ég hafði eftir honum um það, að ég hefði hækkað kaupið. Hv. þm. sagði, að ég hefði rutt brautina fyrir kauphækkuninni þá. Ef við skoðum það niður í kjölinn, þá er ómögulegt að nefna í því sambandi þessa lítilfjörlegu deilu við Eimskipafélagið við hliðina á hinni deilunni, þar sem hlut áttu að máli mörgum sinnum fleiri menn. Nei, ástæðan til kauphækkunarinnar, sem hv. þm. segir, að ég hafi gerzt brautryðjandi að, er auðvitað þessi stóra deila, deilan milli togaraeigenda og sjómanna.

Hv. þm. veit, hvað lá á bak við afskipti mín af kaupdeilunni á milli stj. Eimskipafélagsins og skipverja á skipum félagsins. Það var umhyggja fyrir þjóðinni, því að matarskortur vofði yfir, ef skipin hefðu lengi verið stöðvuð. Og til að leysa þau vandræði, hefði ríkissjóður orðið að gera ráðstafanir, sem hefðu orðið miklu kostnaðarmeiri en numið hefði þeirri upphæð, sem greidd var til samkomulagsins. En það, sem kauphækkuninni olli, voru samningarnir við togarana. Þess vegna geta orð hv. 1. landsk. frá fyrri hl. umr. þessa máls ekki átt við annað en togaradeiluna og afskipti mín af henni. En eins og ég hefi áður tekið fram, var það fyrir eindregna áskorun hans nánustu samverkamanna, að ég gerðist þar milligöngumaður.