14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (585)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil benda hv. 1. landsk. á það, að ég mun sjálfur ákveða, hvenær ég kem í þessa hv. d. og hvenær ekki. (JÞ: Ég óska, að það verði sem oftast.). Ég fylgi þeirri reglu, sem sjálfsögð er, að sitja í þeirri deild, sem ég á atkvæðisrétt í, nema þau mál séu hér til meðferðar sem ég sérstaklega þarf að segja eitthvað um og fylgjast með.

Hv. 1. landsk. segist ekkert hafa minnzt á togaradeiluna. Það hefi ég ekki heldur sagt. Ég sagði, að hv. þm. hefði talið kauphækkunina 1929 mitt verk. Og ef sú hækkun hefði verið mitt verk, gat það ekki stafað af neinu öðru en milligöngu minni í togaradeilunni. Deilan við Eimskipafélagið er í þessu sambandi svo smátt atriði, að ómögulegt er að segja, að ég hafi gegnum afskipti mín af henni valdið almennri kauphækkun í landinu. Og þar sem blöð hv. 1. landsk. taka upp ummæli hans og nota það sem „agitation“ gegn mér, að ég hafi staðið að kauphækkuninni 1929, þá var aths. mín í upphafi þessarar umr. fyllilega réttmæt.

Ég vil minna á það, að nú hafa samherjar hv. 1. landsk. tvisvar framlengt kaupsamninginn frá 1929 óbreyttan. Sama hefir stj. Eimskipafélagsins gert, sem hv. þm. sjálfur átti sæti í. Og eins og hæstv. dómsmrh. benti á, hafa sömu aðilar síðan gengið inn á miklu stórfelldari kauphækkun, er stofnað var til með togarakaupsamningnum.

Ég held fast við það, að ég hafi haft fyllstu ástæðu til að benda hv. 1. landsk. á, að það er mjög óviðeigandi af honum að draga á þann hátt inn í pólitískar deilur, að ég, samkv. óskum samherja hans, gerðist milligöngumaður atvinnurekenda og verkamanna í kaupdeilunni 1929.