14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (587)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Ég held líka, að það hafi verið vindhögg hjá hæstv. dómsmrh., er hann réðst á mig út af kaupgjaldshækkuninni við landvinnu vorið 1930. Hann segir, að ef ég hafi álitið kaupgjald orðið of hátt áður, þá hefði ég átt að berjast gegn þeirri hækkun. Ég hefi nú ekki búið mig undir að tala um þetta efni nú, svo að ég þori ekki að fullyrða, að ég muni rétt, en mig minnir, að kauphækkunin í fyrravor felli aðeins þeim í skaut, sem enga kauphækkun höfðu fengið síðan 1928. Er það ekki rétt? (JBald: Það mun láta nærri). Það var engin ástæða til að standa á móti kauphækkun við landvinnu, þegar áður var búið að hækka kaup sjómannanna. Þar verður alltaf að vera sanngjarnt hlutfall á milli.

Mér fannst það ósanngjarnt af hv. 3. landsk. að kasta hér fram fyrirspurn um það, hvort nauðsynlegt sé að kaupgjald lækki, og ætlast til, að henni sé svarað samstundis. Atvinnurekendur og verkamenn verða sjálfir að ákveða, hvaða kaup skuli greitt á hverjum tíma. Báðir þessir aðilar hafa á hendi gæzlu mikilsverðra hagsmuna þjóðfélagsins; báðir verða að standa á verði um, að kaupgjaldið haldist í eðlilegum skorðum. Fari svo, að þessir aðiljar geti ekki komið sér saman um kaupgjaldið, hlýzt af því þjóðartjón.

Við sjálfstæðismenn höfum komið fram með till. um, að undir slíkum kringumstæðum skeri úr óhlutdrægur dómur, að undangenginni ítarlegri rannsókn, hvort kaupgjald eigi að hækka eða lækka. Með því höfum við sýnt, að við álítum hér um svo mikið vandamál að ræða, að ekki er hægt að ætlast til af neinum, að hann óviðbúinn kveði upp úrskurð um það.

Hv. 3. landsk. verður að láta sér það lynda, að ég vil ekki vera svo léttúðugur, meðan ég fæst við opinber mál, að láta hafa eftir mér ákveðin ummæli um það, hvort kaup á að lækka nú, án þess að hafa haft tækifæri til að rannsaka það mál sérstaklega.

Ég get vitanlega eins og aðrir látið mér það í léttu rúmi liggja, þó að hæstv. dómsmrh., sem þykist hafa vit á öllum málum, en sýnir þó í ræðu og riti, að hann er manna grunnfærnastur í hverju máli, komi með köpuryrði til mín fyrir það, að ég svara ekki fyrirspurn hv. 3. landsk. Ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ég vil a. m. k. vera of samvizkusamur til þess að skella fram órökstuddum dagdómum úr þingmannssæti. Ég hefi áður látið í ljós, að ég álít þjóðfélaginu hollast, að kaupið sé á hverjum tíma svo hátt, sem atvinnuvegirnir eru framast færir um að greiða, en hærra ekki. Og ég álít það mjög óeðlilega og óheppilega úrlausn að taka af ríkisfé til að greiða mismuninn, þegar atvinnurekendum og verkamönnum kemur eigi saman.

Ég skal geta þess, að það var ekki samkv. ósk minni, og ekki, mér vitanlega, samkv. ósk minna samherja, að hæstv. forsrh. skarst í kaupdeiluna 1929.