14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (588)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mér fannst hv. 1. landsk. ekki þakka hv. form. Alþýðuflokksins nægilega stuðninginn. Það virðist nýlega hafa batnað samkomulagið milli flokka þeirra, því að stundum hefir sambúðin verið allerfið þar á milli.

Það er misskilningur hjá hv. 2. landsk., að ég hafi verið að tala um, hvort kaup sé orðið of hátt eða ekki. Það var hv. 1. landsk., sem byrjaði að tala um það sem eitthvert ólán, að hæstv. forsrh. tókst að koma friði á í Eimskipafélagskaupdeilunni. Með því sló hann eiginlega föstu, að kaupið hafi þá orðið of hátt. En svo vill hann annað veifið ganga frá þeirri skoðun og segist þá ekkert vit hafa á því, hvort kaupgjald eigi að hækka eða lækka, að hann hafi ekki haft tækifæri til að mynda sér neina skoðun um það efni.

Hv. þm. hlýtur að skilja það, að um miklu meira var að tefla í kaupgjaldsmálinu í fyrravor en þegar sáttagerðin við Eimskipafélagið fór fram. Ástæðurnar og útlitið í atvinnuheiminum hafði þá mikið breytzt frá því 1929 í þá átt, að kauphækkun var vafasamari.

Hv. 1. landsk. segist ekki geta sagt um, hvort kaupgjald þurfi að hækka eða lækka. En nú er hér einmitt til umr., hvort á að hækka kaup þeirra manna, sem Bjarni heitinn frá Vogi nefndi verkamenn ríkisins. Og hv. þm. er þegar búinn að slá því föstu með atkv. sínu. Um það krefst hann ekki neinnar rannsóknar né dómsúrskurðar. Hann telur sig ekki dómbæran um, hvort kaup verkamanna við einstaklingsfyrirtæki á að hækka eða lækka, en hann vill hækka kaup „verkamanna ríkisins“, þó að hann geti engar sönnur fært á, að það sé réttmætt, eins og verðlag er nú á framleiðslu landsins. Svo greinilega uppgjöf á röksemdafærslu man ég sjaldan eftir að hafa heyrt.