14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (595)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég heyrði, að hv. þm. Snæf. var að furða sig á því, að við framsóknarmenn gerðum það ekki að flokksmáli að vera með þessari tillögu. Við eigum ekki sammerkt við aðra flokka um að gera allt að flokksmáli. Auðvitað var óhjákvæmilegt fyrir hæstv. fjmrh. að fá skorið úr því sem fyrst, hvernig þingið liti á þetta. Hins vegar hefir ekki verið gerð minnsta tilraun af okkar hálfu til að gera þetta flokksmál, og ég man ekki betur en að í stærra máli en þessu hafi komið fyrir samkomulagsleysi í flokki þessa hv. þm., þegar meiri hl. flokks Jóns Magnússonar drap stjórnarskrárbreytingu, sem hann hafði borið fram.

En ég vil segja hv. 2. landsk. og hv. þm. Snæf. það, að kaup bæði frá ríkissjóði og einstaklingum verður ekki aðeins að miðast við þörfina, heldur og getuna. Nú er vitanlegt, að afurðir hafa fallið um þriðjung, frá því sem var árið áður. Þetta hefir vitanlega haft áhrif á afkomu ríkissjóðs. Nú heldur hv. 2. landsk. því líklega fram, að kaup verkamanna eigi að vera jafnhátt, hvernig sem er í ári. Þarna er ég honum alveg ósamdóma. Réttlátasta launalöggjöfin væri sú, sem færi eftir verðlagsskrá, þannig að kaupið lækki, þegar harðnar í ári, og hækkaði með góðæri fyrir atvinnulífið. Þessu hélt Bjarni frá Vogi fram. Það gat þess vegna verið fullkomin ástæða til þess að hafa kaup embættismanna hátt 1924 og 1928, því að þá voru góðæri. En það eru alls ekki sömu ástæður nú. Og einmitt í þeim löndum, þar sem flokksbræður hv. 2. landsk. eru við stj., svo sem í Danmörku og Englandi, er kaup embættismanna oft lækkað á vissum sviðum, þegar hart er í búi, og stjórnirnar eru svo skynsamar að taka þátt í þessu.

Þessir hv. þm. hljóta að sjá, að ef því heldur áfram til lengdar, að framleiðsluvörurnar falla mjög frá því, sem var 1928–1929, þá er óhugsandi annað en að kaupið lækki eitthvað, a. m. k. við óviðgeranlegt atvinnuleysi. Ég er alls ekki eins hræddur við að segja þetta eins og hv. 1. landsk., að kaupið á að lækka, ef afurðir landsmanna stórfalla í verði. Og ég vildi spyrja hv. 2. landsk.: þegar banki hans væri sprunginn á því að lána í útgerð eins og gert var 1928–29, en fiskurinn væri fallinn um helming, hvar ætti þá að taka kaup verkamannanna, ef það á að haldast að öllu leyti óbreytt við það, sem var í góðærinu?