14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (596)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég hafði ekki búizt við, að umr. yrðu miklar við síðari umr. till. Það er þó ekki svo að skilja, að ég telji nokkurn skaða, að þessar umr. hafa farið fram, ég tel þvert á móti, að það hafi verið gott, þótt ég hinsvegar sé hv. 2. landsk. sammála um, að tilgangslaust sé að hefja verulega sókn á hv. 1. landsk. út af hinu sífellda nuddi hans um afskipti hæstv. forsrh. af kaupdeilum áður fyrr. Hann hefir verið með þetta við ýms tækifæri hér í d., en hann vill ganga að mestu frá því nú, að hann hafi nokkuð um það sagt, og meira að segja sagði hann nú, að sér bæri ekki skylda til þess að svara neinu um það, hvort hann teldi, að kaupið ætti að lækka eða hækka.

En út af ummælum hv. þm. Snæf. um, að mínir flokksmenn stæðu á móti mér um þessa till., vil ég taka það fram, að eftir því, sem á undan hafði farið á tveim seinustu þingum, hafði ég fullkomna ástæðu til að halda, að þingið vildi enn á ný samþ. slíka till. sem þessa. Mér þótti sjálfsagt að gefa þinginu tækifæri til að segja sitt álit um það. Ég hefi ekki reynt að hafa áhrif á nokkurn mann í þessu máli, og það er svo langt frá því, að ég taki það illa upp fyrir nokkrum manni, þótt hann greiði atkv. á móti málinu.

Ég álít sem sagt gott, að þessar umr. hafa farið fram. Mönnum hefir orðið ljósara ýmislegt í þessum efnum en áður, og ég get vel sætt mig við hver þau úrslit, sem till. fær að lokum.