09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (630)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Það er orðið nokkuð síðan þessi till. var lögð fram hér í d. Hefir nokkur dráttur orðið á því, að hún væri tekin til umr., og er það að vísu mér sjálfum að kenna að miklu leyti.

Mér virðist lokun Íslandsbanka í fyrra vera svo alvarlegt mál, að það ætti á vera sjálfsagt, að þingið fengi allar þær upplýsingar frá hæstv. stj., sem hún getur látið í té um orsakirnar að lokun bankans.

Almenningi er mál þetta helzt kunnugt af því, sem skrifað hefir verið um það í blöð landsins. Það er og kunnugt, að nokkrum mánuðum áður en bankinn lokaði, hafi hann talið sig eiga á 6. millj. kr. í hreinni eign, hlutafé allt, 4½ millj. kr., og 1200 þús., sem yfirfærðar voru um reikningslokin til þess að vega móti tapi.

Aftur á móti kemur það nokkru síðar á daginn, að bankinn neyðist til að loka, vegna þess að hann telur sig ekki geta haldið áfram starfsemi sinni vegna fjárskorts. Þetta er svo fágætur viðburður í sögu landsins, að fullkomin ástæða virðist vera til að kynna sér allar ástæður fyrir þessum atburði.

Síðan eru tveir menn látnir rannsaka hag bankans, og komast þeir að þeirri niðurstöðu, að umsögn bankastj. í nóv. 1929 um hag bankans sé röng, bankinn eigi ekki nema fyrir skuldum, eða sé á 6. millj. kr. efnaminni en bankastj. hafði talið. Nokkru síðar er skipuð nefnd til þess að rannsaka hag bankans, og kemst hún að þeirri niðurstöðu, að bankinn eigi 3½ millj. kr. minna en ekki neitt.

Þegar svo Útvegsbankinn, sem tók við skuldbindingum Íslandsbanka, er búinn að starfa fram til ársloka 1930, hefir hann orðið að afskrifa 4 millj. 200 þús. kr. fram yfir hlutafé, sem þýðir það, að bankann vantar á 5. millj. kr. til þess að eiga fyrir skuldum.

Þjóðina vantar skýringar á ástæðunum fyrir þessum miklu töpum, ástæðunum fyrir því, að bankinn verður að loka og fyrir því, að fyrsta árið, sem Útvegsbankinn starfar, verður hann að afskrifa á 5. millj. kr. í óinnheimtanlegum skuldum Íslandsbankaþrotabúsins.

Ég get auðvitað ekki gefið skýringu á þessum atburðum, en till. þessi er komin fram til þess, að ríkisstj., ef auðið er, gefi þingi og þjóð skýringu á þessum fyrirbrigðum. Það, sem ég get sagt um þetta, er aðallega byggt á því, sem blöðin hafa sagt um málið, og á öðrum upplýsingum, sem hægt hefir verið að knýja fram, án þess að leita til hæstv. stj. eða starfsmanna bankans. Hefi ég ekki leitað til þessara aðilja til þess að fáa upplýsingar, enda býst ég fastlega við, að ég hefði ekki fengið þær þar, þótt ég hefði beðið þess.

Ríkissjóður lagði í fyrra fram 4½ millj. kr. til starfrækslu Útvegsbankans og til þess að taka á móti þeim töpum Íslandsbanka, sem hlutu að lenda á ríkissjóði. Og á síðastl. ári hefir ríkissjóður orðið að greiða 550 þús. kr. í vexti og afborganir af töpum Íslandsbankabúsins.

Um ástæðurnar til þessa verðum við þm. að fá að vita, þó búast megi við, að grundvallarorsökin til lokunar bankans sé falin í meðferð þeirra manna á fé bankans, sem stjórnuðu honum þangað til hann varð að loka.

Þessar 550 þús. kr. er upphæð, sem vert er að benda á, a. m. k. fyrir okkur Alþýðuflokksmenn, sem höfum orðið að standa í stöðugu stímabraki til þess að fá samþ. lög um verkamannabústaði og fáum nú litla áheyrn, þegar gengið er eftir því, að útvegað sé fé til þess að byggja þá verkamannabústaði, sem síðasta þing gekk þó inn á, að styrktir yrðu af því opinbera. Það er fullkomin ástæða til þess að íhuga, hvað gera mætti fyrir þessa upphæð, sem ganga á árlega í skuldasúpu Íslandsbanka. Fyrir hana mætti byggja 80–90 verkamannabústaði. Verði áframhald á slíkum greiðslum í þrotabúi bankans, þá er sýnilegt, að ríkissjóður missir þar álitlega upphæð árlega, upphæð, sem ástæða er til að sjá eftir, þar sem ekki er sjáanlegt, að fé muni fást á næstunni til byggingar hinna einkarþörfu verkamannabústaða, eins og áður er mælt.

Ef athuguð eru að einhverju leyti sum af hinum gömlu þrotabúum, sem talað hefir verið um í blöðunum og m. a. hafa valdið þeim vandræðum, sem Íslandsbanki komst í, þá verður það skiljanlegt á yfirborðinu, að bankinn yrði að loka, þar sem sum þrotabúin námu 2 millj. kr., eða ef til vill meiru.

Vil ég í því sambandi benda á Copland & Co. Nam það ekki minna en 2½ millj. kr., sem honum var gefið upp á árunum. Virtist Copland þó ekki eiga nema örlitla upphæð rúmar 13 þús. kr., upp í skuld sína við Íslandsbanka, sem orðin var á 4. millj. kr. Þessi útlendi spekúlant, Copland, kallar sig í fyrstu Copland & Co., en síðar Copland h/f. Er það sumra manna mál, að hið nýja félag, Copland h/f, hafi fengið allmikið fé að láni hjá Íslandsbanka á sínum tíma. Er mér þó ekki kunnugt um þetta nema af afspurn, en vildi gjarnan fá að vita, hvort þetta er rétt. Það hefir einnig heyrzt, að gamla félagið skuldi bankanum ennþá um 700 þús. kr., svo að það hafa verið um 3200 þús. kr., sem Copland & Co. hefir skuldað bankanum. Sennilega verður þessi skuld, sem enn er við þrotabú Íslb., aldrei greidd, því vitanlegt er, að Copland er nú kominn í greiðsluþrot að nýju, svo þaðan mun lítils að vænta. En sé það rétt, að nýtt félag, með Copland sem aðalmanni, hafi fengið lán hjá bankanum, eftir að búið var að gefa gamla félaginu upp 2½ millj. kr. og það skuldaði 700 þús. þar að auki, þá er það svo alvarlegt mál, að fullkomin ástæða er til þess að álíta, að farið hafi verið fram úr öllu hófi gálauslega með fé bankans hvað snertir viðskipti við þennan mann. Upphæðin, sem búið var að afskrifa, 2½ millj. kr., er svo geysistór á vorn mælikvarða, að það virðist alveg óverjandi að koma einu félagi í svo mikla skuld við bankann, að hann bíði af slíkt feiknatjón.

Þá hefir verið mikið rætt í blöðunum og víðar um þrotabú Stefáns Th. Jónssonar á Seyðisfirði. Þær upplýsingar hafa fengizt um þetta þrotabú, að bankinn hafi átt 2018 þús. kr. hjá Stefáni, en eignir hans hafi numið 347 þús. kr., er búið var gert upp. Hefir því bankinn tapað 1670 þús. kr. á þessum eina manni.

Um þetta bú hefir það heyrzt, að Stefán hafi skuldað bankanum um 380 þús. kr. árið 1920. Eru eignir hans árið 1930 því minni en skuldir hans voru árið 1920, svo að ekki virðist eftirlitið hafa verið mikið með þessu búi. Árið eftir hækkar svo skuldin og verður þá helmingi hærri en eignirnar námu, er búið var gert upp. Síðan halda skuldir búsins áfram að hækka jafnt og þétt, og 1925 eru þær orðnar 1088 þús. kr., eða rúmlega þrisvar sinnum hærri en eignir búsins 1930. Árið 1927 eru skuldirnar orðnar tæplega fimm sinnum hærri en eignirnar, og 1928 tæplega sex sinnum hærri, eða 2018 þús. kr., gegn eignum á 347 þús. kr.

Þetta yfirlit sýnir, að á síðustu 10 árum hefir bú Stefáns Th. Jónssonar safnað skuldum hjá Íslandsbanka, sem eru sex sinnum hærri en eignir búsins, þegar það er gert upp.

Þetta virðist vera svo fullkominn skortur á eftirliti yfirmanna Íslandsbanka, að maður furðar sig a, að slíkt skuli geta komið fyrir, — svo áberandi skortur, að ekki verður komizt hjá því nú, þegar ríkissjóður er orðinn þátttakandi í skuldunum, að láta rannsaka, í hverju þessir atburðir liggja.

Árið 1929 fór einn af bankastjórum Íslandsbanka austur til Seyðisfjarðar til þess að rannsaka hag útibúsins, og þá sennilega ekki sízt viðskipti Stefáns Th. Jónssonar við bankann. En ekki hefir orðið mikill árangur að sendiför þessa bankastjóra, því hann virðist hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að allt væri í sæmilegu ástandi, þó að eignir bús St. Th. Jónssonar næmu ekki nema einum sjötta hluta af skuldunum, eða a. m. k. varð enginn árangur af förinni.

Hefi ég nú talað um þá af viðskiptavinum bankans, sem mesta eftirtekt hafa vakið. En ekki tel ég það ómögulegt, að vera kunni fleiri af viðskiptavinum bankans, er líkir séu þessum og hljóti að vekja sérstaka eftirtekt, ef rannsókn yrði gerð.

Þá hafa blöðin einnig minnzt nokkuð á viðskipti Íslandsbanka við Sæmund Halldórsson í Stykkishólmi. Þegar bú hans var gert upp, skuldar hann 729354 kr., en á aðeins 43 þús. kr. upp í skuldina. Í marzmán. 1929 eru afsagðir víxlar, 462 þús. kr., sem hljóða upp á hann, og litlu síðar bætist við víxill, að upphæð 45 þús. kr., sem líka er afsagður. Allt eru þetta verðlausir víxlar, þar sem Sæmundur Halldórsson er samþykkjandi, en sonur hans lántakandi.

Þetta sýnir, að í byrjun marzmánaðar 1929 var þetta fyrirtæki komið í þau vandræði, að full ástæða virðist hafa verið til þess fyrir bankann að hætta við það viðskiptum og láta gera það upp. Búið gat ekki lengur staðið í skilum um greiðslur á skuldbindingum, sem jafnskýrt er ákveðið um greiðslur á eins og víxlum, en samt sem áður kaupir bankinn enn víxla af búnu fyrir rúmar 200 þús. kr., eftir að búið var að afsegja víxla frá því upp á rúma ½ millj. kr. Þessar 200 þús. kr. voru veðlausir víxlar með öllu, að öðru leyti en því, að fyrir 10 þús. kr. var veð í afla, en þar sem ekkert greiddist upp í þann víxil, hefir annaðhvort ekkert aflast, eða þá að aflinn hefir gengið upp í aðrar skuldir. Skal ég ekkert um það segja, hvort réttara er, þótt þess muni hinsvegar dæmi, að hið síðara hafi getað átt sér stað. — Það er því svipað með þetta bú og búið á Seyðisfirði, að það hefir safnað skuldum umfram eignir síðastl. 10–12 ár og sokkið dýpra með ári hverju, án þess að nokkurntíma á þessum 10–12 árum hafi búið minnkað skuld sína við bankann. 1919 eru skuldir búsins taldar 55 þús. kr., en eignir reynast 43 þús. kr., þegar það loks er gert upp; svo að strax árið 1919 eru skuldir búsins orðnar meiri en eignirnar. Og frá árinu 1919 hafa skuldir þessa bús farið síhækkandi. 1924 eru skuldirnar 205 þús. kr., 1925 eru þær orðnar 234 þús. kr., 1926 eru þær 342 þús. kr., 1927 469 þús. kr., 1928 595 þús. kr., 1929 718 þús. kr., og 1930 eru skuldirnar alls orðnar 729354 kr. Eru skuldir þessa bús þá orðnar sautjánfaldar á við eignir þess. Eftirlit bankans er ekki meira en það, að á 12 árum er búið alltaf að bæta við sig skuldum, án þess að eignirnar vaxi. — Það hefir flogið fyrir, að Sæmundur Halldórsson hafi viljað framselja bú sitt til þrotabússkipta árið 1925, en að bankinn hafi ekki viljað missa af svo góðum viðskiptamanni og því komið í veg fyrir það, enda þótt hann skuldaði þá um 200 þús. kr. fram yfir eignir. Og síðan hafa skuldir þessa manns aukizt um ½ millj. kr. Er ekki einu sinni því til að dreifa, að skuldirnar hafi minnkað annað árið og vaxið hitt árið, heldur hafa þær stöðugt aukizt. Er harla undarlegt, að hægt skuli vera að lána litlu búi út á veðlausa víxla aðrar eins upphæðir og sýndi sig, að hér var um að ræða, þegar bú Sæmundar Halldórssonar loks var gert upp, því að þá skuldaði búið um 700 þús. kr. umfram eignir. Sýnir þetta út af fyrir sig, hve lítið bankinn hefir hugsað um þann möguleika, að búið standi nokkurntíma í skilum um skuldbindingar sínar, því að alltaf er haldið áfram að lána, enda þótt ekki væri að öðru að ganga en efnalausri persónu, sem að sjálfsögðu ekkert gat greitt, þegar á átti að herða, og til þess kom heldur ekki fyrr en búið var að loka bankanum og aðrir innheimtumenn komu til skjalanna.

Ég vil að lokum taka eitt dæmi enn sem sýnishorn viðskipta Íslandsbanka við einstaka menn og félög. Það er sagt svo, að maður, sem fengið hafði 1740 kr. lán í bankanum og ekki gat greitt það, svo að bankinn varð að afskrifa þetta fé sem tapað, hafi síðar fengið 6 þús. kr. lán í bankanum tryggingarlaust. Mun þetta vera meðal þeirra skulda Íslandsbanka, sem nú er verið að reyna að innheimta, en talið mun vera vonlaust um að fáist greitt. Að slíkt skuli geta átt sér stað, að maður, sem ekki stendur í skilum með litla upphæð, skuli síðar geta fengið þrefalt hærra lán án nokkurra trygginga, er með öllu óskiljanlegur verzlunarmáti og óþekktur, að ég vona, hjá öðrum en Íslandsbanka.

Ég sé ekki ástæðu til að draga fram fleiri dæmi úr sögu Íslandsbanka, en vil að nýju taka það fram, að mér er ekki fullkomlega ljóst, hvort öll þau dæmi, sem ég hefi tilfært, eru rétt, og mun ég því taka þakksamlega öllum ábyggilegum leiðréttingum. Sé eitthvað af því rangt, sem ég hefi drepið hér á, mun ef til vill fleira ranghermt um starfsemi Íslandsbanka úti á meðal almennings, og er því ekki nema gott eitt, að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Sé þetta hinsvegar rétt, og dæmin um óstjórnina í Íslandsbanka fleiri og ekki fegurri en þau, sem ég hefi nefnt, er einnig sjálfsagt, að það komi fram. Ég vænti þess hví, að hv. d. taki þessari till. minni vel og að hún nái fram að ganga og að árangurinn af henni verði sá, að þau skjöl og skilríki, sem skýra gjaldþrot Íslandsbanka, verði lögð fyrir þingið.