09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (633)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil segja nokkur orð út af ræðum hv. flm. og hv. 4. landsk. Ég get gefið þær upplýsingar út af ræðu hv. flm., að síðan þáltill. hans kom fram, hefir lögreglustjóra borizt kæra út af lokun Íslandsbanka frá verkamannafélagninu „Dagsbrún“. Lögreglustjóri var ekki viss um, hvort þetta mál heyrði undir gjaldþrotalögin og bað því um umsögn stjórnarráðsins. Var afráðið, að taka ekki ákvörðun um þetta að sinni, heldur að láta rannsókn fara fram í kyrrþey utan réttar, og fékk lögreglustjóri þrjá lögfræðinga til að framkvæma hana. þennan hátt er í raun og veru framkvæmt það, sem vakir fyrir flm. þátill. Ég get ekki sagt um, hvenær þessari rannsókn verður lokið, en hún ætti að geta verið byrjuð. Þegar þessa er gætt, er minni ástæða til að samþykkja brtt. hv. 4. landsk.

Hinsvegar er ekki óeðlilegt, þótt þjóðin vilji vita, hvernig stendur á því hruni, sem leitt hefir af sér þá byrði á skattgjaldendum, sem nemur öllu því, sem í venjulegu ári er veitt til vega, brúa og síma.

Þess vegna er þetta stórpólitískt mál, af því að tap Íslandsbanka og stöðvun er líklegt til þess að stöðva nokkuð mikið af verklegum framkvæmdum landsins í framtíðinni, a. m. k. þegar hart er í ári.

Þessi töp bankans, sem hv. flm. drap á, eru svo gífurleg og afleiðingar þeirra svo þungbærar fyrir þjóðfélagið, og þá ekki sízt, ef litið er á afleiðingarnar fyrir flokk hv. 4. landsk., sem helt því fram eftir því sem hann hafi krafta til í fyrra, að bankinn væri á ábyrgð landsmanna.

Ég býst því við að greiða þátill. hv. þm. Ak. atkv., þótt hún ef til vill sé tilgangslítil, en viðurkenni, að hún er sprottin af eðlilegri þörf borgaranna til þess að vita, hvernig þessu máli er farið. En ég mun verða á móti brtt. hv. 4. landsk., þar sem mér þykir líklegt, að rannsókn lögreglustjóra verði allítarleg, þótt ekki verði hún lögð fyrir þingið.

Tvennt þótti mér hjákátlegt í ræðu hv. 4. landsk. Það fyrst, að hæstv. forsrh. sem form. bankaráðsins hafi orðið orsök í því, hvernig fé bankans fór. Og í öðru lagi það, að hv. þm. flutti þetta fram í töluvert myndugum ásökunartón. Kom mér hið síðara mjög einkennilega fyrir, þar eð mér hefir alltaf fundizt, að enginn ætti að vera auðmjúkari í þessu máli fyrir utan bankastjórana en einmitt þessi hv. þm

Ég hefði ekki minnzt á afstöðu hv. þm. nú, ef hann hefði ekki, eftir að vera búinn í fyrra að gera sig að undri, farið að ásaka þá menn, sem varið hafa hagsmuni almennings og í hvívetna gert skyldu sína.

Ég veit heldur ekki til, að þess séu dæmi, að maður með gott álit hafi lagt í að skoða banka, sem skuldar 3,5 millj., áður en farið var í hann; svo fer þessi hv. þm. inn í bankann og gefur skýrslu, sem er orðið dæmalausasta plagg í íslenzkum fjármálum, því að samkv. henni skuldar bankinn alls ekki neitt. Þetta ber vott um vöntun á einhverjum þeim hæfileikum, sem mann í opinberri stöðu má ekki skorta.

Ég sárkenni í brjósti um hv. þm., að honum skyldi verða þetta glapræði á. Það út af fyrir sig, að niðurstaðan var skokk, hefði getað haft stórkostlega spillandi áhrif á lánstraust hins ísl. þjóðfélags, ef menn hefðu tekið skýrsluna trúanlega. Enda er það nokkuð ótrúlegt, að banki, sem í dag er skuldlaus, skuli fáum mánuðum eftir verða að afskrifa 10 millj. kr. sem tap. Og þótt hlutafé væri reiknað með í tapinu, þá er þetta þó svo gífurleg ásökun á hv. þm., að það getur ekki kallazt neitt fleipur, þótt ég segi, að hann ætti að vera auðmjúkur, þegar um þetta mál er rætt.

Þá er mikið og margt, sem hv. 4. landsk. þarf að fá þjóð sína til að gleyma, í sambandi við þennan eina dag, sem hann dvaldi í Íslandsbanka. Og svo fer þessi maður, með slíka fortíð í þessu máli, að ásaka form. bankaráðs Íslandsbanka, hæstv. forsrh., fyrir þá, að hann hafi ekki gert skyldu sína, hafi ekki nennt að leggja það á sig að fylgjast með hag bankans. En sannleikurinn er sá, að hæstv. forsrh. lét gera þá einu athugun, sem nokkuð var að marka, á hag bankans. Þá lét hann og Svavar Guðmundsson athuga útibúið á Seyðisfirði, og er það fyrsta óhlutdræga skoðunin, sem þar fór fram, enda var hún framkvæmd í réttlátum, en hörðum rannsóknaranda. Þó það væri ekki annað en þetta, sem hæstv. forsrh. hefði gert fyrir sína þjóð, þá mætti það teljast mikið.

Sem dæmi vil ég benda a, hve ólíkir þeir tveir menn eru sem um þetta hafa vélt. Kristján Karlsson fyrrv. bankastj. Íslandsbanka fer austur á Seyðisfjörð, kemur heim aftur, gerir engar athugasemdir eða breytingar, segir ekki einu sinni form. bankaráðsins frá því, sem athugavert var. Ég geri ráð fyrir því, og vil segja hv. 4. landsk. það, að ef einhverjir geta talað djarflega um lokun Íslandsbanka, þá muni hann brátt komast að raun um, að hann er ekki í þeim hópi. Það er ekki stj., sem hefir neitt að fela í þessu efni.

Það eru tveir flokkar og aðstandendur þeirra, sem gæti orðið það nokkuð óþægilegt, að þetta mál yrði rannsakað til hlítar og það yrði krufið til mergjar, hverjar voru hinar eiginlegu orsakir til þess, að bankanum var lokað.