09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (634)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Pétur Magnússon:

Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því, að ræða mín hefði ekki verið annað en stóryrði, Gróusögur og ágizkanir. Það kann satt að vera, að ég hafi verið stórorður, og er það ofureðlilegt, því að það er ekki hægt að lýsa framkomu landsstj. í þessu máli án þess að nota stór orð.

Um „Gróusögurnar“ er aftur það að segja, að ég hélt, að það orð hljómaði ekki betur frá ráðherrastólunum íslenzku en orðið „snara“ í hengds manns húsi. Þá má vel vera, að ég hafi farið með nokkrar ágizkanir. Þess vegna er það, að ég vil fá rannsóknarnefnd, að hvorki ég né aðrir landsmenn vita svo greinilega sem skyldi um hin raunverulegu drög til lokunar bankans. Og þá einmitt vegna þess, að við viljum lifa í skoðun, en ekki í trú. Við viljum losast við allar ágizkanir.

Ég er sannfærður um, að það er skoðun mikils hluta þjóðarinnar, að stj. með framkomu sinni í bankamálinu hafi veikt traustið á heiðarleika og viðskiptamálaþroska þjóðarinnar. Hvernig heldur hæstv. fjmrh., að áhrifin hefðu orðið, ef danska ríkið hefði hagað sér við hrun Landmandsbankans á líkan hátt og ísl. stj. gerði við greiðslustöðvun Íslandsbanka? Ef stj. hefði þá hrópað, að sjálfsagt væri að loka bankanum, og „velta af sér“ skuldunum, þá hefði danska ríkið ekki haldið trausti því, sem það hafði og hefir enn þann dag í dag. Og var þó ólíku saman að jafna, hruni Landmandsbankans og Íslandsbanka.

Ég er hér ekki að saka stj. um þau töp, sem bankinn varð fyrir. En ég held, að ríkisstj., í staðinn fyrir að gera sem minnst úr þeim töpum, sem þjóðin varð fyrir, hafi farið þá óheppilegu leið að gera eins mikið úr þeim og frekast var unnt.

Það þýðir auðvitað ekki að deila við hæstv. fjmrh. um það, hvort lánskjörin í haust standa í sambandi við lokun Íslandsbanka. Ég verð þó að segja, að ég á erfitt með að trúa því, að hæstv. ráðh. sé ennþá þeirrar skoðunar, að framkoma stj. í þessu máli hafi verið vænleg til að afla landinu lánstrausts erlendis. Ég skal ekki væna hann um að hafa gert annað en það, er hann taldi rétt vera. En hann má vera furðulega óglöggur í þessum efnum, ef það er ekki ennþá farið að renna upp fyrir honum, hversu hörmulega stj. komst inn á villigötur í þessu máli.

Hæstv. dómsmrh. gat þess, að lögreglustj. hafi skipað 3 menna lögfræðinganefnd, samkv. kæru frá Dagsbrún, til þess að rannsaka, hvort nokkuð væri það í framkvæmdum stj. bankans, sem ástæða væri til að láta hana sæta ábyrgð fyrir. Þessi nefndarskipun getur á engan hátt komið í staðinn fyrir þá nefnd, sem ég gerði ráð fyrir. Auk þess er engin trygging fyrir, að þessi nefnd starfi þannig, að von sé um nokkurn verulegan árangur. Það er því fjarri því, að ég falli frá till. minni um rannsóknarnefnd.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira, sem hæstv. ráðh. sagði um efni málsins. Hinsvegar verð ég að kvitta ofurlítið fyrir þá umhyggju, sem hann sýndi mér persónulega. Hann sagði, að ég hefði gert mig að undri með mati mínu á bankanum, og ennfremur, að ekkert væri hægt að gera af viti á einum degi. (Dómsmrh: Það var heldur ekki gert).

Hæstv. ráðh. veit vel, að þegar hæstv. forsrh. kom til mín á föstudagskvöld og mæltist til, að ég tækist á hendur skoðun og mat á Íslandsbanka, sagði ég honum, að ókleift væri að gera fullnaðarrannsókn á bankanum á einum sólarhring. Hann kvaðst vita það, en bað mig framkvæma matið þrátt fyrir það. Fyrir þrábeiðni hans tókst ég starfann á hendur og vann svo að skoðun bankans í rúman sólarhring. Þótt það sé stuttur tími, hafa margir bankar verið skoðaðir á hlutfallslega skemmri tíma en Íslandsbanki í fyrra. Enginn hafði búizt við, að mat okkar Jakobs Möllers yrði fullnaðarmat, heldur að það gæfi lauslega hugmynd um hag stofnunarinnar. Þrátt fyrir það varð raunin sú, að mjög litlu skakkaði á mati okkar á aðalbankanum og þeirri endanlegu niðurstöðu fjögurra manna nefndarinnar. Við J. M. komumst að þeirri niðurstöðu, að nærri léti, að bankinn ætti fyrir skuldum, ef gert væri ráð fyrir, að hann gæti haldið áfram starfsemi sinni á eðlilegan hátt. Síðari matsnefndin taldi hinsvegar, að eignir væru nálægt 10% minni en skuldir, ef miðað var við, að bankinn væri gerður upp þá þegar. Það þarf nú naumast að leiða rök að því, að þessi mismunandi matsgrundvöllur hlaut að hafa talsverð áhrif á matsniðurstöðuna. Ég vil segja, að hann einn út af fyrir sig gefi nægjanlega skýringu á matsmismuninum. En við þetta bætist þó það, að tap á útibúum bankans var af síðari matsnefndinni metið 700 þús. kr. hærra en okkur J. M. var gefið upp — en það var fram tekið af okkur, að við hefðum engan þátt átt í mati þeirra. Loks gerðum við J. M. ráð fyrir, að bankinn mundi græða um ½ millj. kr. á töpuðum seðlum. Þetta var eigi vefengt af síðari nefndinni, án þess þó að hún drægi fjárhæðina frá skuldbindingum bankans. Þegar þessa alls er gætt, mun hver sanngjarn maður verða að játa, að mismunur milli síðara og fyrra matsins sé á engan hátt óeðlilegur, enda get ég frætt hæstv. ráðh. á því, að ýmsir flokksbræður hans hafa látið í ljós, að þeir undruðust, hve litlu munaði á mótunum.

Ég vil aðeins að lokum geta þess, að hæstv. dómsmrh. mun veitast erfitt að vekja hjá mér þá auðmýktartilfinningu, sem hann mjög stagaðist á í ræðu sinni. Og ég býst við því, að ef öll kurl koma til grafar, þá verði það einhver annar en ég, sem fyllist þessari margumræddu auðmýktartilfinningu.