09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (636)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Jón Baldvinsson:

Í fyrra bárum við Alþýðuflokksmenn fram tillögu í frv.formi um leið út úr ógöngum þeim, er lokun Íslandsbanka kom þjóðinni í. Lýstum við því, hverjar byrðar ríkissjóður tæki á sig með þeim úrlausnum, er Íhald og Framsókn að lokum urðu ásátt um. Það þurfti því ekki að ganga að því gruflandi, að sú lausn, sem tekin var, mundi koma þungt niður á ríkissjóði.

Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í umr. Tilefnið til þess, að ég stóð upp, voru orð hv. 4. landsk. út af skipun nefndar 1928, sem átti að rannsaka tryggingar fyrir enska láninu. Ég held, að það sé ekki rétt með farið hjá hv. 4. landsk., að n. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að tryggingar væru nægilegar fyrir láninu. Ég má segja, að skipunarbréf, sem nefndarmönnum var fengið í upphafi, hafi ekki gert ráð fyrir því, að þeir gæfu álit sitt um það, hvort tryggingarnar væru nógar eða ekki, heldur framkvæmdu mat á sjálfum tryggingunum, þ. e. víxlum þeim og skuldabréfum, er bankinn hafði sett ríkissjóði að veði. Þetta gerðu nefndarmenn, og álit þeirra var sent stjórnarráðinu. Ég held, að allir nm. hafi verið sammála um það mat. Síðar mun hafa komið frá stj. fyrirspurn um það, hvort nm. álitu tryggingarnar nægilega miklar fyrir enska láninu, og það var alveg nýtt atriði. Nm., eða a. m. k. 2 þeirra, létu í ljósi við stj., að ef ætti að meta þetta sem venjulega tryggingu fyrir láni, þá mundi það ekki vera talið fullnægjandi, ef fylgt væri reglum þeim, er bankarnir fara eftir. Tryggingin, sem var fyrir láninu, var svipuð að nafnverði og sá hluti lánsins, sem Íslandsbanki hafði með höndum. Það er því ekki rétt hjá hv. 4. landsk.n. hafi komizt að þeirri niðurstöðu við matið 1928, að tryggingarnar væru taldar nægilega miklar. Í fyrsta lagi af því, að n. var í upphafi ekki spurð um það og átti ekki að rannsaka það, heldur aðeins, hvert verðgildi trygginganna væri, og seinna, þegar þeir voru spurðir, svöruðu þeir því, að þeir álitu þetta ekki nægilega tryggingu. Ég vildi aðeins leirétta þetta. Annars mun ég greiða atkv. með till. hv. þm. Ak., því ég álít rétt, að þær skýrslur komi fram, sem til kunna að vera snertandi þetta stóra mál.