10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (644)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er ekki nema lítið, sem þarf að svara hv. 1. landsk., því hann hefir ekki komið með nein ný rök, en þau gömlu hafa verið hrakin. Hann hefir þó haldið því fram, að ábyrgðin af þessum þunga hvíldi á þeirri landsstj., sem hér hafði umboðsvald í fyrra, en það var bankastj., sem hafði þá ábyrgð, því bæði hv. 3. landsk. og hv. þm. Ak. hafa sýnt, að þetta voru ekki nein smáræðistöp. — Í stuttu máli, síðan Tofte var keyptur ú með 80 þús., hefir þessi bankastj. setið þarna, og allir í henni verið nákomnir hv. 1. landsk., og vinum og samherjum hans tókst að koma þessum aurum fyrir á óheppilegan hátt.

Við yfirheyrslu viðvíkjandi gjaldþroti Sæmundar Halldórssonar í Stykkishólmi hefir það komið í ljós, að bankastj. hefir ýtt peningum upp á þennan kaupmann; að eftir að hann var hættur að borga vexti af ½ millj. kr., var ýtt upp á hann 100 þús.

Það þarf því mikið af því Korpúlfsstaðagáfnafari, sem einn af hv. flokksbræðrum þessa þm. hefir lýst, til að geta komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir menn, sem sukka peningum ár eftir ár, séu saklausir, en landsstj., sem bjargar bankanum, sé sek. Ég verð að láta undrun mína í ljósi yfir þessari gáfnalýsingu, sem þessi samherji hv. 1. landsk. hefir fundið upp og gert fræga, því hún upplýsir þau þrekvirki í andlegum átökum, sem hér hafa verið sýnd í dag.

Þó verður hv. 1. landsk. að játa, að eitthvað hafi verið að bankanum, enda talar hann um, að þurft hafi að hjálpa honum í vandræðum hans, og svo um slysfarir hans. Það er rétt, bankinn var í vandræðum, og þessar hrakfarir eru sumpart á ábyrgð hv. 1. landsk., því hann var fjmrh. á þessum tíma, og auk þess var þessi hv. þm. með nefið niðri í bankanum, en lét hann þó sökkva dýpra og dýpra.

Ef hv. 1. landsk. hefði t. d. útvegað bankanum betri stj., þegar hann var ráðh., stj., sem ekki hefði lánað Sæmundi Halldórssyni 100 þús. kr., eftir að hann var hættur að borga vextina, sem ekki hefði lánað Copland 250 þús. kr., eftir að búið var að gefa honum upp 1200 þús. og semja við hann um ½ millj., ef hv. 1. landsk. hefði gripið inn í og gert þetta, þá hefði hann gert skyldu sína, en hann gerði þetta ekki, og þess vegna er það hann, sem ber mikla ábyrgð á skakkaföllum bankans; og það sýnir bezt muninn, að núv. fjmrh. vildi þó vita, hvernig á þessu stæði, og þegar það var athugað, kom í ljós, að bankanum var ólíft.

Ég sýndi fram á það í gær, hvernig það er raunverulega sannað, að bankinn hefir ekki borgað erlendum skuldunautum; það hefði þó mátt ábyrgjast erlendu skuldirnar, þó ekki hefði verið tekin ábyrgð á öðrum skuldum.

En það er leið, sem farin er erlendis, og hefir komið fyrir í Danmörku, að 4 bankar hafa hlaupið undir bagga til að greiða erlendar bankaskuldir heldur en láta erlenda banka tapa á bankagjaldþrotum í landinu. En það, sem einmitt forsrh. og fjmrh. tókst í fyrra, var það, að fá marga af þeim, sem áttu inni í bankanum, til að hlaupa undir bagga, og fyrir það verður baggi landsins léttari en ef sú leið hefði verið farin, sem umboðsmenn dönsku hluthafanna lögðu til.