10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (646)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 4. landsk. hefir átt að gera hreint fyrir sínum framdyrum, en það hafa aðallega verið bakdyrnar, sem hann hefir hreinsað. Hann heldur því fram, að ástand Íslandsbanka hafi ekki verið alvarlegt 1930; það hafi aðallega verið syndir Útvegsbankans, sem mest hafi borið á. En hv. þm. Dal. hefir játað, að bankinn hafi oft ekki vitað að morgni, hvernig hann átti að komast af þann og þann daginn. — Í stuttu máli sagt, þá var bankinn svo aumur í langan tíma, að það var skylda bankastjóranna að gefa hann upp, sbr. verzlunarfyrirtæki. Ekki gat það bætt ástand bankans, þótt hann fengi lán frá Rvík, sem átti að nota til ýmissa fyrirtækja, og ½ millj. frá þýzkum banka. Þegar þessir peningar voru búnir, var Rvík í svo miklum vandræðum, að hún varð að bjarga sér með bráðabirgðaláni á eftir.

En það var gleðilegt, að hv. þm. gat játað, að það er ekki síður erlendis, að bankarnir hlaupi alltaf undir bagga. Hann sagði ennfremur, að ríkisvaldið hafi hnýtt bankann við sig svo sterkum böndum, að það hafi ekki getað komizt undan því að hjálpa, en bankinn var hlutafélag, sem flaggaði með því, hvað hann væri sjálfstæður. Og eftir skaða bankans og Íhaldsflokksins kom stjórn og meðferð hans ekki landinu við, og bankastjórarnir þóttust mega leyna þessu og segja landinu rangt til um hag bankans.

Hv. þm. þótti það ekki nægileg velvild að taka ekki ábyrgð á 35 millj. kr. Ég býst við, að flestir muni heldur vilja kalla það glópsku að taka ábyrgð, þegar svona stóð á.

Hv. þm. segir, að stj. hafi ekki athugað málið. Það er ekki satt. Stj. kallaði saman þingfund að nóttu til, til þess að láta Alþingi vita um þetta.

Þá dróttar hv. þm. því að nokkrum þm. Framsóknarflokksins, að þeir hefðu ætlað sér að snúast á móti flokknum. Ég vil leyfa mér að skora á hv. þm. að nefna nöfn þessara manna, því ella verður hann að standa sem ósannindamaður að þessum orðum.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið miklu betra að reyna ekki að láta þá útlendinga, sem hefðu átt skipti við bankann, og sparisjóðseigendur leggja neitt til, heldur hefði átt að láta allt skella á ríkissjóði. Þetta sýnir aðeins, hversu litla tilfinningu hv. þm. hefir fyrir því, hvílíkur voði þetta var. Það létti auðvitað undir, að þetta kæmi niður á sem flestum.

Að því leyti, sem hv. þm. kallaði framlag Handels- og Privatbankans ölmusu, þá er ég þar ekki á sömu skoðun. Ég tel rétt, að þeir, sem þarna áttu hagsmuna að gæta, hvort sem þeir eru útlendir eða innlendir, tækju þátt í að reisa við þetta fyrirtæki.

Hv. þm. sagði, að lánið hefði verið óhagstætt fyrir landið, en það er þó betra en lánið, sem hv. 1. þm. Skagf. tók árið 1921, og betra en lánið, sem Rvík gat fengið. Hv. þm. sagði, að við ættum að geta fengið eins góð lán og Danmörk, en þá mætti kannske segja, að Rvík hefði átt að fá eins gott lán og Bergen, en hún fékk samt ekki lán, nema með ábyrgð ríkisins og okurkjörum. Það hefir og komið síðar fram, af ýmsum skjölum og skilríkjum, að það mátti heita gott að geta fengið þetta lán með þessum kjörum, eins og þá stóð á.

Þá vildi hv. þm. koma nokkurri ábyrgð á núv. forsrh., fyrir að hafa flutt honum tilmæli bankaráðs um að athuga bankann. Mér er nú ekki vel kunnugt um þetta mál, en það voru Íhaldsflokksmenn, sem samþ. fyrst að skoða bankann. Þá ákvað núv. 3. landsk. að koma og skoða. Bankastj. Landsbankans hafði neitað að skoða þennan sjúkling, og ákvað bankaráðið því að leita til þingsins, og núv. forsrh. flutti bréf þeirra. Sem form. bankaráðs var honum nauðugur einn kostur að gera þetta, úr því að bankaráðið vildi það.

Hv. þm. sagði, að ég hefði gefið vísvitandi ranga skýrslu um skuldir ríkissjóðs í Bretlandi. Ég skal þá geta þess, að það liggja sannanir fyrir því, að Sveinn Björnsson sendiherra gaf um líkt leyti öðrum banka samskonar skýrslu og ég, án þess að við vissum þó hvor um annan. Við fórum báðir eftir landsreikningum hv. núv. 1. landsk., og datt okkur ekki í hug að fara að leiðretta þá frammi fyrir annari þjóð. Þá leiðréttingu gerði núv. fjmrh. síðar, og kom það illa við flokksbræður hv. þm.