12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Sveinn Ólafsson:

Ég á brtt. á þskj. 141, sem að vísu er of seint fram komin, en ég vænti þess þó, að hún fái að koma til atkv. Legg ég til, að í stað 4000 kr., sem frv. gerir ráð fyrir, að varið verði árlega til bókasafna prestakalla, komi 6000 kr. Við 2. umr. um þetta mál lá hér fyrir brtt., sem ég fylgdi og fór fram á, að þetta framlag yrði hækkað upp í 7500 kr. Var sú brtt. felld, og flyt ég því þessa till. til miðlunar. Sjá allir, að þegar fara á að skipta 4000 kr. í 100 staði, kemur svo litið í hvern stað, að litlu sem engu munar. Satt er það að vísu, að ekki fæst mikið fyrir þetta fé, þó að framlagið verði hækkað samkv. till. minni, þar sem ekki er nema um 1/3 hækkun að ræða, en heldur bætir það þó úr skák en hitt, og með því að síðar kynnu að finnast betri ráð til úrlausnar í þessu efni, þætti mér betur fara, ef till. yrði samþ. mér skilst einnig, að þessi bókasöfn prestakalla muni verða verulegur stuðningur fyrir þau bókasöfn, sem nú eru víða fyrir í sveitum, a. m. k. fremur en hin stærri söfn, svo sem amtsbókasöfnin, sem fjarlægðirnar gera flestum að harmabrauði. Ætti það öllum ljóst að vera, að annað tveggja er að ætla sofnum þessum sem svarar 60 kr. hverju til uppjafnaðar á ári, eða að fella þau alveg niður.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að vera að fjölyrða um þetta, en vil endurtaka þá ósk mína, að till. verði vel tekið og að hún finni náð fyrir augum hv. þm.