16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (662)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Torfason:

Það er búið að taka aftur till, um að meta búpening eftir verðlagsskrá hvers hrepps. Verðlagsskýrsluna semja hreppstjóri og prestur og einn maður kosinn af hreppsnefndinni. Þessir menn eiga ekkert skylt við skattanefnd eða yfirskattanefnd. Með þessu, að setja verðlagsskýrslu með verðlagsmæli á gjaldskrá, er verið að auka þeim gildi. Yfirleitt hafa þessar verðlagsskrár aðeins þýðingu fyrir presta og afgjöld, sem eru borguð í fríðu eftir landaurum. En þarna urðu þessar verðlagsskrár þýðingarmiklar sem undirstaða undir skattgreiðslur. Ég held, að það sé varhugavert að láta verðlagsskýrslurnar verða raðandi um verðlagið, því mér er kunnugt um, að ákaflega breytilegt verðlag er í hreppum, þótt landkostir séu álíka góðir og sala á afurðum alveg eins. En ef ætti að setja þennan skattaverðmæli inn í tekju- og eignarskattslögin, þá held ég, að það þyrfti um leið að breyta verðlagsskrárlogunum og ganga betur frá þessu, með því að fela yfirskattan. að athuga skýrslurnar og veita þeim vald til að breyta þeim. Að því er snertir ummæli hv. þm. Dal., um að það færi í bága við stjskr., að lögin geri ráð fyrir, að það megi breyta einhverju með fjárl., þá get ég ekki verið honum sammála. Þetta ætti þá að þýða, að engum staf mætti hagga í þeim málefnum, sem skipa á með lögum, nema af þinginu. Löggjafarvaldið afsalar sér oft valdi sínu til framkvæmdarvalds, og jafnvel til ýmsra nefnda. Samkv. þessari stefnu skilst mér, að það geti ekki náð nokkurri átt, að löggjafarvaldið megi ekki afsala einhverju valdi sínu til fjárlagavaldsins. Löggjöf vor hefir víða gert þetta, í tolllögum og hafnarlögum. Við vitum sjálfsagt allir, að í landi, þar sem bezt er vakað yfir stjórnarskrárfyrirmælum og grundvallarlögum, Englandi, þar er einmitt skattahæð ákveðin með fjárlögum. Það getur verið hentugra að víkja til, og það er ekki víst einu sinni, að slík ákvæði yrðu skattgreiðendum til tjóns; þess háttar fer eftir ýmsum ástæðum, t. d. hvernig lætur í ári, og eftir því, hvaða tekjur ríkissjóður þarf að hafa. Ég veit ekki, hvort ástæða er fyrir skattgreiðendur að hafa á móti þessu. Ég vildi benda á þetta nú. Mér hefir verið sagt, að úrskurður hafi verið lagður á þetta mál, en ég býst við, að ekki hefði átt við að gera það fyrr en við 3. umr.