16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (666)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Torfason:

Hv. þm. Dal. kom með aths. út af ummælum mínum um þau ákvæði frv., að hækka megi og lækka tekjuskattinn með einföldu fjárlagaákvæði. Gáfu þær aths. ekkert tilefni til svars, enda hafði ég ekki sagt annað en það, sem voru óhrekjanlegar staðreyndir í þessum efnum: Ég gaf einungis stutta skýrslu um reynslu mína og annara í þessum greinum. — Hv. þm. var að tala um tilfinningar, svo sem hans er vandi. Ég held, að hv. þm. ætti að temja sér dálítið meira rólega yfirvegun hlutanna, í stað þess að vera með þetta stöðuga fleipur um tilfinningar. Ég held, að það sé yfirleitt bezt að leggja tilfinningarnar til hliðar, þegar um fjármálaefni er að ræða. En þá list hefir hv. þm. Dal. ekki tamið sér, enda fer litlum sögum af fjármálaviti hans bæði fyrr og síðar.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að í þeim atriðum þessa frv., sem hv. þm. Dal. telur stjskr. brotna, er ekki um annað að ræða en það, sem verið hefir í lögum okkar síðan 1928. Þá var ráðh. heimilað að bæta 25% við tekjuskattinn. Það, sem ákveðið er í þessu frv., er því ótvírætt innan þeirra takmarka, sem gildandi lög ákveða, og er sízt lengra gengið, því að í frv. er líka heimilað að lækka skattinn um 25%, og er það því mjög í hag skattgreiðendum. Með lögunum frá 1928 er framkvæmdarvaldinu falið að ákveða skattinn að nokkru leyti og innan lögbundinna takmarka. Hér er hert á og vald þetta fengið í hendur þinginu sem fjárlagagjafa. Vitaskuld er þetta innan ramma stjskr., því að þó að stjskr. mæli svo fyrir, að skattamálum skuli skipað með lögum, þá er hér hvergi farið yfir þau takmörk. Almenni löggjafinn skal skipa þessum málum, og getur hann vitaskuld falið þetta fjárveitingavaldinu, ekki síður en framkvæmdarvaldinu, sem síðan 1928 hefir farið með þessi mál hvað þetta atriði snertir. Ef hér er um stjórnarskrárbrot að ræða, þá hefir þingið 1928 framið miklu stærra stjskr.brot. Annars er það ekki nema gott, að búið sé svo um þessa hnúta, að hægt sé að laga þetta í hendi sér að einhverju leyti, eftir kringumstæðunum á hverjum tíma. Og með því að enska þjóðin lætur sér sæma að hafa slíkt fyrirkomulag í skattamálum sínum og telur það ekkert varhugavert, þá held ég, að okkur hérna sé alveg óhætt að fara að dæmi þeirra. Er það öldungis út í bláinn að halda, að skattaloggjöf okkar verði leikfang í nokkurs manns hendi fyrir þá sök.