16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (672)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði nú, skal ég taka það fram, að það á ekki frekar við mínar till. en hans. Hans till. hnigu að því að taka miklum mun hærri tekjuskatt í ríkissjóð en nú er; síðan áttu útsvörin að leggjast ofan á, en þau eru sem næst þreföld við tekjuskattinn. Hv. þm. Ísaf. vildi hækka tekju- og eignarskattinn til ríkissjóðs um nálega helming, án þess að skeyta því nokkru, þótt bæjar- og sveitarsjóðir eigi þá eftir að taka útsvörin — þrefalda upphæð – af hinum sama tekjustofni.