16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (673)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég er borinn svo alvarlegum sökum af hv. frsm., að hæstv. forseti verður að leyfa mér að segja nokkur orð til þess að bera þær af mér.

Hv. frsm. er enn að reyna að halda því fram, að tekjuskatturinn samkv. mínum till. fari fram úr tekjunum. Þetta er tilbúningur einn, eins og hv. þm. hlýtur að vita. Minn skattur fer ekki upp úr 48% af tekjunum, og það er því fjarri öllu viti hjá hv. frsm. að ætla að telja mönnum trú um, að hann fari upp úr 100%. Því fer fjarri, að orðum sé eyðandi að slíku. Það er einnig fjarstæða, að engar leiðir séu til þess að þrefaldaskattinn, aðrar en að þrefalda skattstigann. Slíkt dettur engum óvitlausum manni í hug, því að þá færi skatturinn upp undir 200% af tekjunum! Hinsvegar er það enginn vandi að fá 6 millj. kr. í skatt út af 30 millj. kr. skattskyldum tekjum landsmanna. (HStef: En því má ekki taka útsvörin eftir sömu reglum og tekjuskattinn?) Í sjálfu sér hefi ég ekkert á móti því, en því fer fjarri, að hv. frsm. haldi þeirri reglu í till, sínum. Hann vill láta taka tekjur sveitar- og bæjarfélaga með ýmsu móti, t. d. vegagjaldi, aukaniðurjöfnun o. fl. Hitt er háskalegur misskilningur hjá hv. frsm., að ekki sé hægt að þre- eða fjórfalda skattinn nema margfalda skattstigann að sama skapi. Mig furðar á því, að hv. frsm. skuli hvað eftir annað bera fram hvílíkar staðleysur.