24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (686)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Ísaf. hefir gert grein fyrir brtt. sínum, svo að ég hefi þar litlu við að bæta, enda þótt ég fylgi þeim sem minni hl. fjhn. En ég vil í þess stað rifja nokkuð upp, hvernig til þessa frv. er stofnað.

Fyrir tveim árum var skipuð mþn. í skattamálum. Virtist af þeim umr., sem þá urðu hér um þetta mál, að verkefnið ætti að vera að koma skattamálunum á nýjan, fastan og réttlátan grundvöll. Annars hefði ekki heldur verið ástæða til neinnar nefndarskipunar. Menn létu sem þeir æsktu breytinga á skattalöggjöfinni. Í þessa mþn. voru skipaðir þeir hv. þm. Ísaf., hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Skagf. hér liggur nú fyrir frv. frá meiri hl. þessarar nefndar.

Hið fyrsta, sem menn reka augun í, er, að meiri hl. hefir enga tilraun gert til að breyta grundvelli skattanna, þ. e. því, á hverjum skattarnir eiga að hvíla. Hinsvegar sést fljótt, að hv. þm. Ísaf. hefir verið á annari skoðun en hinir nefndarmennirnir. Hann ber eigi aðeins fram till. um breyt. á skattahæðinni, heldur flytur hann till. um að færa skattana yfir af einni stétt á aðra. Hann hefir því starfað í samræmi við þann þingvilja, er kom fram, er mþn. var skipuð. En fulltrúi Framsóknarflokksins hefir hinsvegar gengið í bandalag við fulltrúa Íhaldsins, og það — sem furðulegra er — hefir komið á daginn, að Framsóknarflokkurinn fylgir þessum furðulegu till. þeirra tvímenninganna.

Ef litið er á það frv., sem hér liggur fyrir, sest, hvernig vinnan hefir gengið í n. Þær breyt., sem hv. 1. þm. N.-M. hefir fengið inn í frv., eru um ríkisskattanefnd, sem allir flokkar eru sammála um og stofna hefði mátt með einföldum lögum. Þá hefir hann fengið inn í frv. 25% hækkun á tekju- og eignarskatti, ef þingið veitir samþykki til slíkrar hækkunar. En hæstv. forseti hefir nú úrskurðað, að það ákvæði sé stjskr.brot. Þá fer nú ávinningurinn að verða lítill.

Þá má telja það, að hækka persónufrádráttinn úr 500 í 800 kr. Að vísu er að þessu dálítil bót, og ég veit, að kjósendur hv. 1. þm. N.-M. hafa óskað þessarar breytingar. En til þess að verða ekki fyrir tekjumissi, fundu þeir hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Skagf. upp ráð, sem allur þingheimur hlær að. Skattstigann mátti auðvitað ekki hækka. Ráðið var að draga helming útsvara og tekjuskatts frá skattskyldum tekjum, en láta menn greiða skatt af hinum helmingnum. Þetta á að bæta upp hækkunina á frádráttarupphæðinni. Þetta er nú það, sem hv. 1. þm. N.-M., fulltrúi Framsóknarflokksins, hefir áorkað í nefndinni og svo er ekkert líklegra en að þessi síðasta uppfynding hans falli, — og hvað á þá aumingja 1. þm. N.-M. að gera? Líklega að fella hækkunina á frádrættinum til þess að minnka ekki ríkissjóðstekjurnar ! Annars vil ég ekki fara að leggjast á þennan vesalings þingmann meira. Ég býst við, að kjósendur hans og annara framsóknarmanna, sem fylgja honum að málum, kunni að meta við þá frammistöðuna.

Hv. þm. Ísaf. hefir borið fram brtt. um hækkun skattstigans fyrir hinar hærri tekjur og hækkar persónufrádráttinn upp í 1200 kr. í Rvík, 1000 kr. í öðrum kaupstoðum og 800 kr. í sveitum. Hann hefir á þann hátt tekið tillit til hinnar mismunandi dýrtíðar í landinu, eins og tíðkast erlendis. Tekjuaukningin af hækkun skattsins lendir einkum á þeim, sem hafa yfir 7000 kr. árstekjur; og á að vera til að létta tollum af almenningi. Þetta er eitthvað í þá átt, sem meiri hl. þingsins ætlaðist til að farið yrði, þegar mþn. í skattamálum var skipuð. Hæstv. fjmrh. hefir játað, að þær brtt. hv. þm. Ísaf., sem ekki koma skattahæð við, séu betur samdar en ákvæði frv. meiri hl. Um dráttarvextina er það að segja, að þeir eru þegar komnir á útsvörin í Rvík. Þar sem engir dráttarvextir eru á tekju- og eignarskatti, reyna menn eðlilega að draga greiðsluna sem allra lengst. Hefir borið mjög á þessu hér í Rvík og stundum hefir þessi dráttur orðið til þess, að skatturinn hefir alls ekki náðst.

Þá flytur og hv. þm. Ísaf. till. um að hafa fleiri en einn gjalddaga. Hinir nm. hafa ekki tekið undir þetta. mér er ekki kunnugt um, hvernig á því stendur, en varla getur það verið af umhyggju fyrir hag ríkissjóðs né þægindum gjaldþegnanna.

Hv. 1. þm. N.-M. hefir komið fram með sérstakt frv. um, hvernig eigi að leggja útsvör á. Hér er ákvæði um stundarsakir frá hv. þm. Ísaf. um, að fara megi að miklu leyti eftir sömu reglum og um tekjuskatt og eignarskatt. En ég hygg, að það sé betra en tekjuskattur og eignarskattur að því leyti; að eftir því má næstum leggja á eftir efnum og ástæðum. Á þetta hefir hv. 1. þm. N.-M. ekki getað fallizt. Hann vill koma með frv. til að sýna, að hann sé fylgjandi þeirri hugsun að velja fastan gjaldastofn fyrir útsvörin, en hefir það í því formi, að enginn getur fallizt á það. Það frv. sefur áreiðanlega fleiri þing og verður svo sjálfdautt.

Hv. þm. Dal. talaði á móti þeirri breyt., sem meiri hl. n. hefir tekið upp, að heimila stj. að heimta inn tekjuskattinn með 25% álagningu. Þetta er tekið upp vegna þess, að forseti hefir fellt það, að þingið sjálft gæti í frárl. haft þetta 25% álag, eins og var í frv. fyrst. Ég skoða úrskurð forseta rangan, en úr því sem komið er, þá er bezt að reyna hann á þessu atriði og fá úrskurð hans um það. Hv. þm. Dal. hefir setið hér á þingi fyrr en nú; hann sat hér, þegar lögin voru samþ. um að heimila 25 % álagningu á tekjuskattinn og eignarskattinn. Þá vil ég spyrja: Hefir þetta verið á móti stjskr. allan þennan tíma?

Það er mjög eðlilegt, eftir þeim skoðunum, sem Íhaldið hefir yfirleitt, að því sé illa við það, að tekjuskattsálagningin hækki. Aftur á móti eru íhaldsmenn ekkert á móti því, þó að tollarnir hækki, þó að það megi alveg eins kallast stjskr.brot.

Ég sé hér í þessu frv. ávöxt af sambandi flokkanna, sem mun ná fram að ganga að miklu leyti í því formi, sem Íhaldið óskaði eftir.