20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (692)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það gleður mig í raun og veru, að hv. fyrirspyrjanda og mér virðist ekki bera mikið á milli í aðalatriðum, þar sem hann hefir blátt áfram viðurkennt það, að sama sé, hvort upphæðir þessar séu taldar á sjóðsreikningi eða á rekstrarreikningi. Þetta er mikil viðurkenning af hálfu hv. fyrirspyrjanda.

En í lok ræðu sinnar fór hv. fyrirspyrjandi að tala um, að ríkisskuldirnar hefðu vaxið. Hver hefir neitað því, að skuldirnar hafi vaxið? Hefir nokkrum dottið í hug hér á Alþingi, að það auki ekki skuldir ríkisins, þegar tekin eru lán til hinna mörgu fyrirtækja ríkisins? Það er því alveg óviðkomandi fyrirspurninni, hvort skuldirnar hafi aukizt eða ekki. Okkur hv. fyrirspyrjanda ber í rauninni ekkert á milli annað en bókfærslufyrirkomulagið, og bráðabirgðaskýrsla mín er alveg í samræmi við ríkisbókhaldið nýja.

Þá minntist hv. fyrirspyrjandi á þá upphæð, sem fór árið 1923 til byggingar strandferðaskipins „Esju“ og ég gat um áðan. Mér skildist það á honum, að hann vildi ekki taka á sig neina ábyrgði í þessu efni, því það væri verk fyrirrennara síns, Klemensar heitins Jónssonar, og bæri hann því ábyrgðina á þessu. Samhliða þessu tók hv. fyrirspyrjandi skýrt fram, að Magnús Jónsson bæri ábyrgðina á færslu þess ráðh., sem undan honum var, er hluti Íslandsbanka af enska láninu var ekki talinn með gjöldunum. Þetta er allmikið ósamræmi hjá hv. fyrirspyrjanda.

Það er ekki það, sem um er deilt milli okkar, hver hafi undirskrifað landsreikningana, heldur það, sem hefir verið gert; það er aðalatriðið. Ég hefi farið eins að og aðrir ráðh. á undan mér.

Hv. fyrirspyrjanda þótti það undarlegt, að ekki kæmi fram tekjuhalli, ef ég færði þessar upphæðir gjaldamegin og svo lán á móti. Ég vil benda honum á landsreikningana 1921. Þar stendur að lokum, að það sé 690 þús. kr. tekjuafgangur, en tekjumegin er fært inn lán, sem tekið hafði verið á árinu, og er hátt á þriðju millj. kr. Greiðsluhalli þessa landsreiknings, sem sýnir tekjuafgang, hefir orðið töluvert yfir 2 millj., þótt landsreikningurinn sýni tekjuafgang. Þar getur hv. fyrirspyrjandi séð, að þetta hefir engin áhrif. Þótt ég hefði fylgt þessari reglu, hefði tekjuafgangurinn orðið sá sami.

Þá minntist hv. fyrirspyrjandi á, hvernig skipting skuldanna hafi verið hjá mér í yfirlitinu fyrir 1930. Það var hreinasti óþarfi af honum að blanda hagstofunni í þetta, að því leyti að hún var ekki til þess kvödd. Ég tók það skýrt fram um skuldaskýrsluna fyrir árin 1920–1928, að hagstofan hefði gert hana. En ég nefndi það ekki um skýrsluna fyrir árið 1930. Hagstofan hafði enga aðstöðu til að geta gert hana svona rétt eftir nýárið henni gat ekki verið kunnugt um, hvað skuldunum leið. Hagstofan hefir aðeins, fyrir mín tilmæli, gert þá skýrslu, sem ég lýsti yfir, að væri frá henni, og hefi ég ekkert við hana að athuga. Ég óskaði eftir því við hagstofuna, að hún reiknað með sama gengi öll árin, til þess að betra yfirlit fengist. Ég óskaði líka eftir, að hún reiknaði nú skuldaskýrsluna alla í ísl. krónum. Það var komið meir en mál til þess, að lagaður væri sá ruglingur, sem á skýrslunum hefir verið undanfarin ár. Þar hefir verið ruglað saman ísl. og dönskum krónum. Svo að þeir, er reikningana sjá og ekki þekkja til, standa í þeirri meiningu, að hér sé um íslenzkar kr. að ræða. En ég játa, að það eru fleiri en hv. fyrirspyrjandi, sem eiga sök á því, að fyrri ára landsreikningar eru ekki greinilegri en raun ber vitni um. Hann viðhafði þessa reglu eða óreglu í sinni ráðh. tíð og aðrir höfðu gert það á undan honum. En ég tel, að það hafi verið nauðsyn á að reikna upp, svo að vissu væri að ganga í þessu efni.

Að svo komnu hefi ég ekki ástæðu til að segja meira.