25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (695)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Ég þykist sjá, að hv. þdm. muni vera búnir að gera það upp í huga sér, hverja afstöðu þeir taki til þeirra brtt., sem við frv. eru. og þess vegna þýðir mér það ef til vill ekki að fara mjög mörgum orðum um brtt. mínar á þskj. 191.

Ég vil þakka hv. samþm. mínum fyrir það, að hann vildi taka þessar till. mínar til fósturs í lasleikaforföllum mínum, þó að ekki þyrfti að koma til þess.

Ég vil geta þess, sem hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir, að eftir tölusetningunni á brtt. mínum, þá falla þær ekki við réttar greinar í frv. Þetta stafar af því, að till. voru bornar fram við frv. eins og það var við 2. umr., en ég gerði það fyrir tilmæli annara að taka þær aftur til 3. umr., en þá breyttist greinatalan við það, að 8. gr. fell niður, en hæstv. forseti hefir lofað mér, að þær skuli vera bornar upp á réttum stað.

Tvær fyrstu brtt. eru ekki nýmæli. Fyrsta brtt., við 12. gr. eða nú við 11. gr., er um það, að draga aukaútsvar og tekju- og eignarskatt frá skattskyldum tekjum. Þessi till. hefir nú einnig verið borin fram af hv. þm. Dal. og líka verið í gildandi skattalöggjöf. Mér finnst ég ekki þurfa að fara mörgum orðum um þessa till.; það liggur í augum uppi, að svona gjöld á að draga frá. Það er með öllu óhugsandi, að nokkur maður þurfi að greiða tekjuskatt af þeirri upphæð, sem hann hefir orðið að greiða í þessa beinu skatta. Um þetta atriði er í raun og veru ekki mikill skoðanamunur, en mér líkar illa sú leið, sem farið er fram á í frv., að draga helming þessara skatta frá. Það liggur í hlutarins eðli, að annaðhvort er rétt að draga allt frá eða ekkert, en að draga helminginn frá, það nær engri átt.

Það eru ýmis svona atriði, þar sem ekki má ganga neinn meðalveg til samkomulags. T. d. ef vafi leki á því, að einhver maður hefði framið eitthvert það verk, sem væri refsingarvert, þá væri það auðvitað ekkert réttlæti að láta hann taka rit helming refsingarinnar. Annaðhvort hefir maðurinn framið verkið eða hann hefir ekki framið það, svo að þar má ekki fara neina millileið. Verða hv. þdm. því að gera það upp við sig, hvort þeir vilja hér greiða tvöfaldan skatt eða ekki. Í till. minni er bætt við það, sem er í lögum nú, orðunum „sem greiddur hefir verið á árinu“, því að í framkvæmdinni hefir það verið svo, að þeir skattar hafa verið dregnir frá, sem maðurinn hefir greitt á því ári.

Þá er önnur brtt. mín, á., sem verður við 13. gr., um persónufrádráttinn. Þar er tekin upp till., sem mþn. gerði, en var síðan breytt við meðferð málsins í fyrra, sem sé, að persónufrádrátturinn sé mismunandi þar, eftir því hvar á landinu er. Ef þessi persónufrádráttur á að byggjast á því, að þessi frádregna upphæð sé álitin það lægsta, sem hve: einstaklingur komist af með til að framfleyta lífinu, þá nær það engri att, að hann sé alstaðar jafnhár. Og þó að hann væri ekki byggður á því, þá væri samt rétt að hafa hann mismunandi háan, eftir því hvað dýrt er að lifa á hverjum stað, því að annars er hann bara út í loftið.

Sumir vilja nú kannske líta svo á, að þar sem þetta muni ekki nema 100 kr., þá svari það alls ekki til þess mikla mismunar, sem er á dýrtíðinni á ýmsum stöðum. Þetta er nú að vísu rétt, en þessi till. gengur þó í áttina til að jafna þetta, og ég álít, að skoðun mþn. á þessu hafi verið alveg laukrétt, og finnst mér því rétt að fá nú álit hv. þdm. um þessa sanngjörnu brtt.

B-liður 2. brtt. er aftur á móti nýmæli. Ég man a. m. k. ekki til, að áður hafi komið brtt. í þá átt, að til frádráttar komi ekki aðeins persónufrádráttur þeirra barna, sem eru undir 14 ára, heldur líka þau börn, sem kosta verður til náms, þó að þau séu yfir 14 ára að aldri. Þessi persónufrádráttur byggist vitanlega á því, að sá, sem skattinn á að greiða, hafi kostnað við framfærslu þessa barns og því sé rétt að draga þetta frá. Þess vegna hlýtur það að vera réttmætt og sjálfsagt, að þessi frádráttur eigi að vera svo lengi sem maðurinn hefir barnið á beinni framfærslu, og það til þjóðþrifa. Hitt er eðlilegt, að annars sé miðað við 14 ár, því að venjulega fara börn að vinna fyrir sér, þegar þau hafa náð þeim aldri, og eru því ekki ómagar eftir þann tíma. Það er mönnum kunnugt, sem börn eiga, að sá kostnaður, sem af skólagöngunni leiðir, eykst mjög mikið eftir að börnin eru komin yfir þann aldur. Þá er lokið þeirri skólagöngu, sem ókeypis er í té látin, og þá verða foreldrarnir að fara að greiða skólagjöld fyrir börn sín, ef þau búa hér í Reykjavík eða öðrum kaupstöðum. Nú, ef þau eiga ekki heima hér, þá verða þau að kaupa allar þarfir þeirra hér, og allir vita, hversu ódýrt það er. — Nei, það hljóta allir að sjá, að börnin verða foreldrum oft miklu dýrari eftir að þau eru komin yfir 14 ára aldur.

Það er því hrein fjarstæða, að menn skuli hætta að reikna persónufrádrátt fyrir þau börn, sem svo er um, sem nú lýsti ég.

Ég býst við, að allir viðurkenni, að því lengur, sem börn og unglingar eru í skólum, því betra sé það og heillavænlegra fyrir menntun og fræðslu þjóðarinnar. Geta nú ekki þessir sömu menn séð, hve hróplegt ranglæti það væri að fyrirbyggja það í eitt skipti fyrir öll með lögum, að alþýða manna geti veitt bornum sínum þá fræðslu, sem nauðsynleg þykir?

Skal ég svo ekki að sinni tefja hv. dm. á því að tala lengur fyrir þessum brtt. mínum. Mér finnst ástæðurnar vera svo ljósar og einfaldar, að menn geti þegar gert upp við sig, hvort þeim finnst þær svo knýjandi og sanngjarnar, að þeir vilji ljá þeim fylgi sitt.