20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (698)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Fyrirspyrjandi (Jón Þorláksson):

Það er náttúrlega gleðilegt að heyra þá játningu hæstv. fjmrh., að honum hafi ekki komið til hugar að skjóta þessum upphæðum undan. Hann segir, að okkur beri ekki annað á milli en færslufyrirkomulagið, og að það sé í samræmi við hið nýja ríkisbókhald. Ég ætla ekki að fara út í þau endemi, sem innleidd eru með því; ég þykizt vita að tækifæri verð til þess síðar.

Nokkru seinna í ræðu sinni vitnaði hæstv. fjmrh. í landsreikningana 1921, að þar væru tekjumegin færðar lánsupphæðir hátt á 3. millj. kr. og svo kæmi fram tekjuafgangur. Í þessu sambandi vil ég

geta þess, að það var einmitt ég, sem fyrstur manna varð til þess að finna að þessu fyrirkomulagi, sem var á landsreikningnum 1921 og næstu ár á undan, eða frá 1917–22. Þessum reikningum er svo hagað, að ekki verður séð, hvort er í raun og veru tekjuafgangur eða ekki. Það kom stundum fyrir, að þeir töldu tekjuafgang, sem ekki var það, þar sem grípa varð til lánsfjár til að mæta útgjöldunum. En þetta var lagað með þeirri tilhögun, sem tekin var upp með landsreikningnum 1923 og fylgt hefir verið síðan. Um þá tilhögun verð ég að segja, að hún er glögg til yfirlits um það, hvernig þjóðarbúskapurinn gengur: þann kost hefir hún. En ég er hræddur um, ef þessi tilhögun, sem hæstv. fjmrh. talar um, verður tekin upp, að erfiðara verði að fylgjast með. En ég get látið vera að tala um þetta, þar til þau frv., er um þessi mál fjalla, koma til umr.

Hæstv. fjmrh. hefir ekki skilið rétt það, sem ég sagði um afstöðu okkar Klemensar Jónssonar viðvíkjandi færslu á hluta af byggingarkostnaði í strandferðaskipsins „Esju“. Ég sagði, að hann bæri ábyrgð á því að hafa sleppt upphæðinni úr yfirliti sínu í þingbyrjun 1924, en ég bæri ábyrgðina á því, hvernig fært hefði verið á LR 1923. Þó Kl. J. hafi orðið það á að sleppa eða sézt yfir að telja þennan kostnað með útgjöldunum, þá er það veik ástæða fyrir hæstv. fjmrh. fyrir því að sleppa öllu því, er hann hefir sleppt. Því ekki hefir verið um annað en vangæzlu hjá Kl. J. að ræða.

Það er ekki nema ánægjulegt, að hæstv. ráðh. endurtók það, að hann hefði ekki blandað hagstofunni í skuldaskýrslurnar 1930. En það er ofmælt, að hann hafi ekki gert það. Það er reyndar satt, að hann sagði ekki með berum orðum, að hún hefði gert skýrsluna; en hann sagði annað, sem blandaði hagstofunni í málið, þar sem hann las upp, að skiptingin væri gerð nákvæmlega á sama hátt og hagstofan hefði gert til ásloka 1929. Með þessum ummælum er hagstofunni blandað inn í skiptinguna á skuldaskýrslunni 1930; það er ekki hægt að neita því, þótt eigi sé sagt, að hún hafi framkvæmt hana. Það er gott að hæstv. fjmrh. hefir viðurkennt, að hagstofan sé frí af þessu.

Ég hafði líka ætlað að leiða hjá mér við þessar umr. mál, sem hlýtur að koma til umr. hér í þinginu. Það er staðhæfing ýmsra um rugling og skekkjur í landsreikningum undanfarinna ára. En úr því að hæstv. ráðh. í svari sínu kom inn á þetta atriði, með því að tala um rugling þar sem færðar væru saman ísl. og danskar krónur, get ég ekki komizt hjá því að segja nokkur orð um það. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., og kannske líka fleirum, sem halda því fram, að það sé ruglingur eða rangt að telja sumar skuldir í ísl. krónum og aðrar í dönskum. Landsreikningarnir verða að vera réttir í þessu, og það rétta er, að sumar skuldbindingar ríkissjóðs eru í dönskum kr. og skylt að greiða þær í dönskum krónum, en aðrar í ísl. kr. Þá er líka fyrst og fremst skylt að telja í landsreikningum skuldbindingarnar með þeirri sömu og réttu krónutölu, sem þær er stofnaðar með. Þetta er reikningsleg skylda. Hitt er ekki nema áætlun, eftir að orðinn er mismunur á gengi dönsku og íslenzku kr., hvað gera þurfi ráð fyrir mörgum ísl. kr. til að greiða skuldbindingarnar í d. kr. Það, sem ég vil undirstrika, er það, að sú skuldarupphæð, í hvaða gjaldeyri sem er, eigi að svara til hinnar eiginlegu skuldbindingar, og sú tala verður að vera rétt. Og sá landsreikningur er réttur, sem telur hana fram rétta. Nú er það svo með þessar skuldbindingar í dönskum kr., allar sem nú eru eftir, að þær eru stofnaðar fyrir þann tíma eða áður en orðin var venja að taka fram í skuldbindingunum sjálfum, hvort greiðast skyldu í dönskum kr. eða íslenzkum. Það var ekki fyrr en 1920, að menn áttuðu sig á, að á þessu gat verið munur. Þá var fyrst farið að taka fram, hvort greiða skyldi í dönskum kr. eða ísl. Íslendingar hafa auðvitað, eins og líka sjálfsagt var, viðurkennt, að lán, sem tekin voru hjá dönskum bönkum eða stofnunum, áður en farið var að taka nokkuð fram um þetta, skyldu greiðast með dönskum kr. Við yrðum ekki álitnir standa við skuldbindingar okkar, ef við vildum halda fram, að við gætum greitt skuldirnar í ísl. kr.

Þessi viðurkenning hefir verið gefin í landsreikningunum m. a. með því að telja skuldirnar í dönskum kr. Það er í alla staði heiðarlegt og rétt. Sama er að segja um skuldbindingar, sem ríkið undirgengst í £. Sá landsreikningur er réttur, sem telur £ með réttri upphæð í £, því það er sú skuldbinding, sem ísl. ríkið á að fullnægja, hvort sem það verða fleiri eða færri ísl. kr.

Ég gæti flutt miklu lengra mál, en vil ekki gera það að sinni, til þess að vekja ekki nýjar umræður, eftir að ég hefði lítinn rétt til að taka til máls. Ég vil minna á, að þegar verið er að halda fram, að það hafi verið ruglingur eða jafnvel rangt að telja í landsreikningum og skuldaskýrslum gengismun á dönsku og íslenzku krónunni, þá verði að líta á, um hvaða ár sé að ræða og hvernig á stæði.

Fram undir árslok 1925 var hér algert lausgengi. Enginn gat vitað, hvert yrði hið endanlega hlutfall ísl. og dönsku kr. Það munu hafa verið fáar stofnarnir, sem töldu rétt í reikningsfærslu um áramót að elta gengið að því er snerti færslu á útlendum skuldum, heldur fært þær með nafnverði þennan tíma. Þetta gerði ríkissjóður líka. Ég sé ekki, að rétt sé að áfella Magnús Kristjánsson, sem samdi fyrstu landsreikningana eftir að komið var á það gengi, sem nú er, þó hann héldi áfram að færa þá á sama hátt. Því að hann var sér þess meðvitandi, að sú eina löglega ísl. kr. var þá og er enn í dag sú sama og hinar Norðurlandakrónurnar. Við erum ekki enn búnir að breyta myntleigum okkar, og á meðan við erum ekki búnir að því, hvílir engin skylda á fjmrh. að færa landsreikningana öðruvísi en að skuldbindingarnar komi fram í landsins löglegu mynt, eins og þær eru í raun og veru. En það er komið fast inn í meðvitund sumra manna, og þar á meðal hæstv. fjmrh., að þessi löglega króna sé úr sögunni; hann hefir meira að segja borið fram frv. um að fella hana úr lögum og taka upp pappírskrónuna, sem nú er notuð manna á milli og ekki orðin lögmæt enn. Engan er hægt að átelja fyrir að færa landsreikningana í landsins löglegu krónu. Magnús Kristjánsson, sem samdi landsreikningana 1926 og 1927, sem teknir hafa verið sem dæmi upp á þennan rugling, eða hvað þeir nú kalla það, hefir áreiðanlega hugsað, að sú yrði ekki hin endanlega niðurstaða, að við þyrftum að gjalda okkar skuldir með fleiri krónum en þær voru stofnaðar í. Hann hefir áreiðanlega hugsað sér, að horfið yrði aftur að okkar löglegu mynt. Ég vildi taka þetta fram sérstaklega hans vegna, sem látinn er, því mér finnst þá ómaklegt að vera að tala um rugling í landsreikningunum, sem hann hefir samið, út af þessu atriði.