20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (699)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér finnst hv. 1. landsk. hafa tekið að sér fullerfitt hlutverk, að fara að verja það fyrirkomulag að færa sumar skuldir á landsreikningunum í dönskum kr. Ég held, að hann hefði ekki átt að taka það að sér, því það er ómögulegt að verja það, ekki einu sinni á þeim grundvelli, sem hv. þm. reyndi, sem sé þeim, að færa ætti í mynt þess lands, sem lán væri tekið hjá. En þetta hefir aldrei verið gert um ensku lánin. Ensku lánin hafa verið færð í íslenzkum krónum og alltaf reiknað með því gengi, sem á þeim tíma var á ísl. kr.

Það var hreinasti óþarfi af hv. þm. að blanda Magnúsi Kristjánssyni í þetta, vegna þess að byrjunin átti að vera miklu fyrr. Ekkert var eðlilegra en að ríkissjóður tæki upp það sama, sem bankarnir gerðu, þegar þeir fyrst fóru að skrá gengi. Það var mörgum árum áður, mun hafa verið 1922 eða þar um bil.

Í sjálfu sér er ekkert á móti því, sem hv. þm. heldur fram, að telja skuldirnar í dönskum krónum eða £, innan striks auðvitað, en út verður að færa í ísl. krónum, enda hefir þetta verið venjan með £. Ef þetta hefði verið gert við dönsku krónuna, þá hefði ekkert verið við það að athuga. En það hefir ekki verið gert og það sést ekki, hvaða skuldbindingar eru í dönskum kr. og hverjar í íslenzkum. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það, að skuldaskýrslur eigi að færa í ísl. kr. Það er því óþarfi af okkur að eyða tíma í að tala um þetta, og óþarft fyrir hv. þm. að verja gamla sleifarlagið.