20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (701)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Fyrirspyrjandi (Jón Þorláksson):

Ég þykist vita, að það, sem ég sagði um rétta færslu á skuldbindingum í erlendum gjaldeyri, verði til þess, að hæstv. fjmrh. fari að átta sig á því efni. Í LR á að tilgreina erlend lán í mynt þess lands, sem þau voru tekin í. Hingað til hafa ensk lán jafnan verið talin í sterlingspundum. Ég skal taka dæmi, sem ég býst við, að hæstv. ráðh. skilji. Jarðarafgjöld voru goldin í „fríðum peningi“. Þannig man ég, að faðir minn átti að gjalda 6 sauði fyrir jörð, er hann hafði á leigu. Rétta afgjaldið eftir jörðina var því sex sauðir, en ekki það krónutal, sem þeir voru metnir til í það og það skiptið. Meðan ekki er gert út um forlög íslenzku krónunnar getur umbreyting erlends gjaldeyris í íslenzka mynt ekki orðið annað en áætlunarupphæð. Skuldareigendur myndu ekki fást til að skipta á sinni upphaflegu kröfu og ísl. pappírskrónum. Að vísu er meinlaust að reikna skuldbindingar í erlendum gjaldeyri í ísl. krónum, en það er ekki rétt né ábyggileg færsla í LR.