25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (710)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Það er gott fyrir afgreiðslu þessa máls, að umr. eru nú farnar að dragast saman og snúast um einstök atriði frv.

Það er nú eins og fyrri daginn, þegar hv. þm. Ísaf. fer að bera saman tolla og beina skatta, að hann gleymir alveg útsvörunum, sem eru þó þrefalt hærri heldur en tekjuskattur og eignarskattur til samans. Þess vegna er samanburður hans alltaf jafnvillandi.

Hv. þm. minntist á till. mínar um fasta tekjustofna handa sveitarfélögum; ég skal nú benda á, hvað út kemur, ef sama útreikningi er beitt við hans till. sem hann notaði til að sýna fram á, að samkv. till. mínum gætu menn í einstöku tilfellum þurft að greiða 104% af tekjum sínum til hins opinbera. Hann sagði við 1. umr. þessa máls, að eftir sínum till. gæti tekjuskatturinn farið upp í 40% af hæstu tekjum. Seinna leiðrétti hann þetta þannig, að hæsti skattur af skattskyldum tekjum væri 29% eftir hans frv. (HG: Hæsti stighækkandi skattur er eftir frv. mínu 29%, en 40% af því, sem umfram er hámark). — Nú verður að hafa það í huga, að þegar búið er að hækka skattinn til ríkissjóðs eftir till. hv. þm., þá er eftir að taka jafnmikið og áður til sveitarþarfa af sama skattstofni. Þegar hv. þm. væri þannig búinn að hækka tekjuskatt og eignarskatt um nærri helming, gætu þeir ásamt útsvari farið upp í 117% eftir samskonar útreikningi og hann notaði við mínar till. Hann reynir nú líklega að bjarga sér með því, að útsvarið eigi að taka eftir öðrum reglum en tekjuskattinn. En ef vægja á þeim, sem hærra eru í skattstiganum, hlýtur þunginn af útsvörunum að lenda þeim mun meira á lágtekjumönnunum, sem hv. þm. þykist vilja létta sköttunum af. Þessi villa hv. þm. í málinu stafar af því, að hann sér ekki yfir nema part af málinu, sem hann er alltaf að reyna að gera sig svo góðan af. nú er það svo sumsstaðar á landinu, að menn raunverulega verða að greiða til sveitarsjóða jafnvel 14-falt við það, sem þeir greiða í tekjuskatt.

Eitt atriði vildi ég minnast á enn, 4. brtt. hv. þm. Ísaf., við 10. gr. frv. Hann furðar sig áa, að ég skuli ekki geta fallizt á þá brtt. Ég hefi áður gert hana að umtalsefni og getið þess, að ég gæti fallizt á þessa till., ef felld væri niður setningin, sem tengd er við síðari málsgr. hennar. Efni 10. gr. er e. t. v. betur framsett í brtt. en frv.; tel ég þó, að orðalag frv. þurfi ekki að valda misskilningi. En niðurlagssetningin, sem ákveður, að skuldaeftirgjafir skuli því aðeins ekki teljast til skattskyldra tekna, að sannazt hafi um þær við „gjaldþrot, nauðasamninga eða á annan fullnægjandi hátt“, að eignir hafi ekki verið til fyrir skuldinni. Þessi setning gerir það að verkum, að ég get ekki greitt atkv. með 4. brtt. Það er með öllu óréttmætt að telja það til skattskyldra tekna skuldunautar, þó hann fái eftirgjöf á skuldum, það kemur aðeins fram á efnahag hans og getur haft áhrif á eignarskatt.