20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (727)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Skagf. hélt alllanga tölu um þetta mál, og hélt sér dálítið við efnið (MG: Dálítið! Algerlega), og var það út af fyrir sig lofsvert. Ég æta nú ekki að deila um einstök atriði frv. á þessu stigi málsins, því n. mun á sínum tíma athuga frv. og koma fram með brtt. við það, og það sama geta einstakir þm. gert, ef þeim býður svo við að horfa. Og ég krefst þess alls ekki, að hv. þdm. lýsi afstöðu sinni til frv. þegar við þessa umr., og ég hefi alls ekki haldið neinu fram um það, að frv. megi ekki breyta. Slíkar staðhæfingar nokkurra hv. þm., sem til máls hafa tekið, eru alveg gripnar úr lausu lofti.

Mér skildist helzt á hv. 1. þm. Skagf., að hann væri nú heldur fylgjandi gamla fyrirkomulaginu, því að það „væri hægt“ að finna hag ríkissjóð eftir því. Jæja, Þó að hv. þm. er ekki ýkja kröfuharður um þessa hluti. Það er auðvitað rétt, að það er mögulegt að finna hinn raunverulega hag ríkissjóðs eftir gamla fyrirkomulaginu, en það yrði óneitanlega ærið miklu léttara, ef reikningar ríkissjóðs væru svo undirbyggðir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þá sagði þessi hv. þm., að þetta fyrirkomulag væri dýrt, og vildi fá upplýsingar um kostnaðarhlið þess. Ég skal fúslega játa það, að ég get ekki svarað því til hlítar. Það segir sig sjálft, að ógerlegt má heita, að slá nokkru föstu um slíkt, meðan engin reynsla er fengin. Það hlítur að sjálfsögðu að taka nokkurn tíma að koma þessum breytingum á; og þarf enginn að ætla, að allt ríkisbókhaldið verði umskapað um ein áramót. Til þess þarf sennilega tvö til þrjú ár. En ef svo kynni að fara, að þetta fyrirkomulag yrði heldur dýrara en hið gamla, þá er spurningin þessi: Á að sleppa því fyrir þá sök eina, ef það að öðru leyti reynist til hagsbóta og framfara? Er það ekki þess virði, að kostandi sé til þess smávægilegri upphæð? Ég fyrir mitt leyti álit það þess virði, en þeir sem ekki hafa trú á því, að þetta fyrirkomulag sé betra en hið gamla, vilja vitaskuld engu til þess kosta.

Hv. þm. var að tala um það, að útlendingar sæju ekki bókfærslu okkar. Já, það er nú svo! Þeir sjá þó í öllu falli landsreikninginn, sem hlýtur að byggjast á ríkisbókhaldinu, og af honum má fljótt sjá, hvort ríkisbókhaldið er í nýtízku formi eða ekki. Og vera má, að hv. þm. geti fengið nokkrar sannanir fyrir því, að ég tala ekki út í bláinn. Ég skal benda honum á tvo menn, sem ef til vill gætu gefið honum upplýsingar um þetta atriði, þá Svein Björnsson sendiherra og Jón Krabbe skrifstofustjóra í Kaupmannahöfn. Það getur líka vel verið, að ég hafi einhversstaðar í fórum mínum eitthvað skriflegt frá þessum mönnum um þetta efni, en það er óþarfi að vera að framkalla það hér. Og það er alveg að ófyrirsynju að vera með hita og æsing í þessu máli; og flokkapólitík á hér ekki heima, því að málið er í eðli sínu ópólitískt.

Hv. þm. Vestm. kvartaði um það í fyrri ræðu sinni, að ég hefði talað með mikilli viðkvæmni, og leit helzt út fyrir, að hv. þm. gæti ekki tára bundizt fyrir þá sök. En það var alls ekki ætlun mín að gera þennan hv. þm. klökkvan né græta hann hér frammi fyrir öllum þingheimi. Ég hafði því ekki önnur ráð en að breyta um tón, og tala til hv. þm. á þann veg, sem við átti. Þetta hefir borið tilætlaðan árangur; hv. þm. er nú farinn að bera sig mannalega, eins og hans er reyndar vandi, og gleður það mig. Ég hefi að öðru leyti ekki ástæðu til að svara ræðu hans, þar sem hann vék ekki einu orði að málinu sjálfu, og hefi ég því ekkert við þennan hv. þm. að tala.