20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (728)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Jónsson:

Hæstv. fjmrh. furðaði sig mjög á því, að hv. þm. Vestm. skyldi draga fjármálapólitík landsins inn í þessar umræður. Ég fyrir mitt leyti álit slíkt ofur eðlilegt. Þetta mál er í eðli sínu pólitískt, stórpólitískt, enda þótt ef til vill megi segja, að það sé ekki flokkapólitík viðkomandi. Nú standa nýjar kosningar fyrir dyrum. Það er nú alkunnugt, að það sem nú verður einkum og sér í lagi kosið um, eru fjármálin og fjármálastjórn undanfarinna ára. þessvegna er það næsta mikilsvert fyrir fólkið, að fá glögga skýrslu um ríkisbúskapinn. Undir slíkum kringumstæðum, hefir það oft verið stórpólitískt bragð hjá valdhöfunum að reyna að rugla reikningsfærslu ríkissjóðsins, til þess að gera almenningi erfiðara um að fylgjast með hinum raunverulegu niðurstöðum. Ég segi alls ekki, að slíkur tilgangur vaki fyrir hæstv. fjmrh., en þetta hefir verið leikið með öðrum þjóðum og á ýmsum tímum. Ég ætlaði alls ekki og gerði alls ekki árás á hæstv. ráðh. í ræðu minni áðan; ég tók heldur enga endanlega afstöðu til þessa frv., en benti einungis á augljósa galla þess, hv. n. til leiðbeiningar og frekari athugunar.

Hæstv. ráðh. lagði höfuðáherzluna á það, að ríkið heimtaði tvöfalda bókfærslu af einstaklingunum, og taldi það ósamræmi að hafa þá ekki sína eigin bókfærslu í a. m. k. eins fullkomnu formi. En hér er töluvert ólíku saman að jafna. Að ríkið heimtar fullkomið bókfærsluform af borgurunum kemur af því, að það þarf að fá grundvöll undir skattaframtal; það þarf að tryggja sér slíkan grundvöll með lögum. Ennfremur hefir lögskipað bókhald sönnunarþýðingu í prívatmálum, en hvorugt þetta á við um bókhald ríkisins. Bókhald einstaklinga þarf því ekki að vera mjög einfalt og aðgengilegt, því að um það fjalla einungis bókhaldsfróðir menn, ef til þessa kemur, en um landsreikninginn er það aðalatriðið, að hann sé ljós og einfaldur að formi, til þess að alþýða manna, sem ekki er ætlandi að hafa bókhaldsþekkingu almennt, geti fylgzt með niðurstöðum reikningsins. Það er t. d. alkunnugt, að þegar um margbreytileg og umfangsmikil einkafyrirtæki er að ræða, svo sem hlutafélög, þá eiga hluthafar oft erfitt með að átta sig á niðurstöðum reikninganna, og verður þeim oft nauðugur einn kostur að varpa öllu þvílíku yfir á herðar bókhaldssérfróðra manna. Slíkt má ekki eiga sér stað um ríkisbókhaldið. Bókhald einkafyrirtækja er til þess, að kunnáttumenn geti dæmt um það, ef þarf, en bókhald ríkisins til þess, að almenningur geti dæmt um það, ef ágreiningur rís. Þetta er sá meginmunur, sem er á þessu tvennu, og hæstv. ráðh. gerir alveg rangt í því að rugla þessu saman.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það sæist ekki á landsreikningnum, hversu miklar skuldir ríkisins væru út á við. Mér er ekki vel ljóst, hvað hæstv. ráðh. á við. (Fjmrh.: Ég sagði, að útlendingar gætu ekki seð hversu skuldirnar væru miklar út á við). Já, hvaða skuldir á hæstv. ráðh. við? Á hann við þær skuldir banka og fyrirtækja, sem stofnaðar eru fyrir milligöngu og ábyrgð ríkisins? Ef svo er, þá er hægur vandi að breyta þessu þannig, að ríkisreikningurinn beri það með sér, og get Ég ekki séð, að slík breyting þurfi að standa nokkuð í sambandi við þetta frv. Annars er það annað, sem útlendingar leggja meira upp úr en formi landsreikningsins, þegar þeir vilja grennslast um hag okkar. Og það er jafnvel fleira en ríkisskuldirnar, sem skiptir máli í því sambandi. (Fjmrh.: Þetta kemur ekki þessu máli við). Það, sem útlendinga skiptir mestu að vita um okkar hag, eru fyrst og fremst atvinnuhættir landsmanna, framleiðsluskilyrði yfirleitt og verzlunarjöfnuðurinn út á við. Að vísu skipta ríkisskuldirnar út á við miklu máli í þessu sambandi, og þó sérstaklega það, hversu er haldið á fjármálum ríkisins í heild.

Þá var það rangfærsla hjá hæstv. ráðh., að ég hefði látið svo um mælt, að honum væri ekki heimilt að hafa það bókhald, sem honum þóknaðist. En hitt taldi ég hégóma einan, að fara til þingsins með slíkt mál, þar sem hæstv. ráðh. er þegar byrjaður á því bókhaldi, sem frv. fjallar um. En að vísu er þetta aukaatriði, og gerir því hvorki til né frá, og mun ég því ekki fara um það fleiri orðum.

Ég vil svo að endingu skjóta því til hv. þdm., hvort þeir telji það ekki, eftir atvikum, fært að láta landsreikninginn vera áfram í sama formi og hingað til, a. m. k. í aðalatriðunum, þó að sjálfu bókhaldinu verði breytt. Ég vænti þess, að hv. þm. sé það vel ljóst, að það er ekki einhlítt, að ríkisbókhaldið sé vísindalegt, svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir, heldur þurfi það og að gefa skýrslu um fjármálin til almennings.

Það er ekki alltaf það fræðilega, sem reynist bezt. Það eru ekki alltaf búfræðingarnir, sem verða mestu búmennirnir. Getur meira að segja farið svo, að menn hnjóti um bókvitið.

Það var mikill búmaður, sem ól upp kálf eftir beztu reglum í Búnaðarritinu. En þar var einhver töluskekkja. Kálfurinn sálaðist, og var sagt, að hann hefði dáið úr prentvillu. Hæstv. fjmrh. ætlar nú að fara eftir blessuðum reglunum.

En ég er hræddur um, að það geti farið svipað og með kálfinn, og að allt þetta verði fremur til að fela en til að upplýsa.