20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (734)

10. mál, bifreiðaskattur

Pétur Ottesen:

Reglulegir þingfundir eru ekki bunir að standa nema þrjá daga, en þó eru það ekki allfá skattafrv., sem þegar er búið að taka til umr. hér. Að vísu er ekki alstaðar beint verið að bera fram nýja skatta, heldur tilfærslur og breytingar á því, hvernig ná skuli tekjum í ríkissjóðinn. Þetta frv. miðar þó til verulegrar skatthækkunar, sem nemur a. m. k. nokkuð yfir 200 þús. kr. Svipað frv. var borið fram á síðasta þingi, nokkru fyrir þinglok, og að því er ég ætla að tilhlutun stj. Þar var þó ekki gert ráð fyrir að taka nema einfaldan skatt af bifreiðum, nefnilega 7 aura af hverju kg., sem þeir eyða af benzíni. nú á einnig að leggja innflutningstoll á allt gúmmi, sem notað er á bifreiðar, og sérstakan skatt eftir þungabifreiðanna, en flutningabifreiðar eru þó undanþegnar þeim skatti.

Þá er gert ráð fyrir, að nokkuð af skattinum gangi til viðhalds sýsluvega. Brtt. um það fluttum við hv. þm. Mýr. í fyrra og byggðum hana á því, að umferð um sýsluvegi er alveg hliðstæð umferð þjóðvega. Það hefir nefndin tekið til greina við samningu þessa frv. En brtt. okkar á síðasta þingi kom aldrei til atkv., af því að frv. dagaði uppi. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að einungis 10% af skattinum megi verja til viðhalds sýsluvega. Þetta virðist mér vera mikils til of lítið, og býst ég ekki við, að þetta sé í neinu samræmi við lengd og umferð sýsluveganna, samanborið við þjóðvegina. Ég skýt því til n. þeirrar, sem frv. gengur væntanlega til, að athuga þetta gaumgæfilega. Því að svo þungar byrðar hvíla á þeim, sem eiga að bera uppi viðhald veganna, að ekki má láta hjá líða að sýna fulla sanngirni í þessu máli og láta hæfilegan hluta af þessum skatti ganga til viðhalds sýsluveganna.

Annað atriði, sem ég vildi víkja til n., er endurgreiðsla á tolli af benzíni, sem notað er til annars en bifreiða. Hér segir í 7. gr. frv., að fjmrh. megi í reglugerð heimila þetta endurgjald, þegar ársnotkun nemur a. m. k. 500 kg. hjá hverjum notanda. sé um minni notkun að ræða, verða t. d. vélbátar og dráttarvélar að borga þennan skatt til vegaviðhalds í landinu. í frv. því, sem lá fyrir síðasta þingi, var svo ákveðið, að skylt væri að endurgreiða toll af öllu benzíni, sem notað væri á þennan hátt. Og því beini ég þessu til n., að breyta þessum ákvæðum í samræmi við það, því það nær vitanlega engri átt að skattleggja t. d. bátaútveginn á þennan hátt.

Þá er það ekki fleira, sem ég finn ástæðu til að segja að svo stöddu máli um þetta frv.