20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (735)

10. mál, bifreiðaskattur

Haraldur Guðmundsson:

Þegar athugað er, hve langar, kappsfullar og heitar umr. urðu hér í hv. deild milli íhalds- og framsóknarmanna um síðasta frv., er hér var til umr. í deildinni (frv. um ríkisbókhald og endurskoðun) þá sýnist bregða nokkuð kynlega við og kippa allmjög í annað horn, að enginn úr Íhaldsflokknum skuli verða til að andmæla þessu fóstri stj., frv. um að leggja toll á gúmmi og benzín og þungaskatt á bifreiðar. Þetta synir, hve höfuðflokkarnir baðir, Íhaldsflokkurinn og Framsókn, eru innilega sammála um flestallt, sem verulegu máli skiptir. Ræðumenn þeirra geta karpað af miklum hita og mælsku um form fjárl. og bókhalds ríkisins og þess háttar, sem litlu máli skiptir, en þegar um það er að ræða að leggja tolla og skatta á almenning, þá er bezta samkomulag (SE: Já, alltaf bezta samkomulag). Rétt mælir hv. þm. Dal.

Þetta frv. er, eins og þau sem fyrir lágu í gær, samið af fulltrúum beggja flokkanna, Íhalds og Framsóknar, og tekið að sér af hæstv. fjmrh. Það er eftirtektarvert, að öll þessi frv. ganga í þá átt að halda við eða hækka tollana, óbeinu skattana. En eitt frv. meiri hl. mþn. sker sig úr; það er frv. um tekju- og eignarskatt. Hann má ekki hækka, heldur fremur lækka. Þetta sýnir glöggt stefnuna. Það á að hækka tolla á neyzluvörum og nauðsynjum, en lækka beinu skattana til að hlífa eignum og gróða efnamanna.

Enn ljósari verður þessi sameiginlega stefna, ef athuguð er saga þessa frv. Fyrir fáeinum árum bar hv. 2. þm. G.K. (ÓTh) fram frv. svipað þessu. Þá fékk það maklega útreið og hefir síðan gengið undir nafninu „litla, ljóta frumvarpið“, og enn fleiri kjarnmikil lýsingarorð fylgdu því þá til moldar frá orðsnillingum Framsóknarflokksins. (ÓTh: Já, þau voru mörg og hrífandi, og aðallega frá hæstv. dómsmrh.). Nú er öldin önnur. Nú tekur hæstv. fjmrh. Framsóknarflokksins þetta frv. upp á sína arma. Svo náin var samvinnan þegar á síðasta þingi, að hann fékk þann mann úr Íhaldsfl., sem háðulegust og hörðust orð hefir haft um stj., hv. 2. þm. G.-K., til að hafa framsögu í málinu. (HStef: Það var nú n., sem réð því). Ég trúi ekki, að hv. 1. þm. N.-M. hafi sýnt svo mikla ónærgætni að gera það móti vilja ráðherrans (ÓTh: Engin skömm að því). Samvinnan var góð; það stendur berlega í nál. meiri hl., sem undir hefir skrifað, hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. N.-M., sennilega hvor fyrir sinn flokk.

Ég skal láta þetta nægja sem inngang að því, sem ég segi um þetta frv. eins og það liggur nú fyrir. Eftir því, sem áætlað er í fjárlfrv. hæstv. stj., eiga tekjur af núverandi bifreiðaskatti að nema 80 þús. kr., en samkv. grg. þessa frv. er gert ráð fyrir 300.600 kr. tekjum, og sú áætlun byggist á innflutningsskýrslum hagstofunnar 1929 og skýrslum vegamálastjóra um skrásettar bifreiðar 1. júlí 1930. Líklega verður hækkunin talsvert meiri. Þessi skattur á þá a. m. k. að hækka um 220 þús. kr. eða 275%. Þetta er sú hliðin, sem að ríkissjóði veit.

Á 6. bls. í grg. frv. er sýnd viðleitni til að finna, hve mikið skatturinn muni hækka á hverri bifreið. Ég verð að byggja á því, sem þar er sagt, þótt ég telji að þar sé allt of lágt áætlað. Samkv. því, sem þar segir, nemur hækkunin um 150%, eftir upplýsingum frá vegamálastjóra, þar sem 80 aura skattur af 100 km. akstri hækkar upp í h. u. b. 2 kr. Á algengum fólksflutningabifreiðum á þá hækkunin að verða rétt um 150%, en nokkru minni, segir vegamálastjóri, á vörubifreiðum. En það er varla rétt athugað. Hann segir, að þungaskattur lendi ekki á þeim og fái þær því minni skatt. En þungaskatturinn nemur ekki nema um 15% af skattinum öllum eða 30 aura af hverjum 198 aurum á f6lksbifreiðum. En vörubifreiðar greiða mestan hluta af tollinum á benzíni og gúmmi og verða að því leyti harðar úti en hinar, sem nota minna af því, einkum einkabifreiðirnar.

Vegamálastjóri upplýsir, að skattur á venjulegri fólksbifreið sé nú 250 kr. Samkv. grg. hækkar hann upp í h. u. b. 625 kr., en ég tel víst, að hækkunin verði meiri, og enn meiri á vörubílum. mér þykir þetta býsna mikil hækkun. Ef frv. hæstv. fjmrh. verður samþ., hlýtur flutningsgjald bæði fyrir fólk og vörur að hækka verulega. Það munar um minna en 600–700 kr. skatt á ári af einni bifreið.

Hv. þm. Borgf. gat þess, að þetta frv. væri að því leyti. verra en frv. það, er flutt var af hæstv. ráðh. í fyrra, að nú væri aðeins heimilað að endurgreiða tollinn af benzíni, sem ekki væri notað til bifreiða, þar sem þetta hefði hinsvegar verið skylda samkv. frv. í fyrra.

Ég vil um atriði þetta taka í sama strenginn og hv. þm. Borgf. Það eiga að sjálfsögðu að vera bein ákvæði í lögunum sjálfum um, að þessi endurgreiðsla skuli fara fram, en ekki að vera lagt á vald ráðh., hvort tollurinn skuli endurgreiddur eða ekki.

Sú greining á skattinum, sem gerð er í frv., er til lítilla bóta. Þungaskatturinn er svo lítill hluti heildarskattsins, að sá jöfnuður, sem næst með honum, er hverfandi. Hann mun nema 13% af heildarskattinum.

Sú skattastefna, sem þetta frv. er byggt á, að tolla nauðsynjar, er að mínu viti beinlínis skaðleg og heimskuleg. Þar að auki hefir frv. þann megingalla, að hækkunin kemur þyngst niður á þeim bifreiðum, sem mest eru notaðar. Einkabifreiðar og svokallaðir lúxusbilar eru ekki skattaðir meira eða fremur en aðrar bifreiðar, heldur þvert á móti. Flutninga- og vörubílar verða harðast úti.

Ég skal svo ekki fara öllu fleiri orðum um frv. við þessa umr., og mun ekki greiða atkvæði á móti því, að það fái að fara til nefndar. Geri ég það fyrir kurteisissakir við hæstv. fjmrh., enda mundi það líklega að litlu gagni koma, þótt við alþýðuflokksmenn greiddum atkv. gegn því. Mér virðist sem sjá megi fyrir örlög Karþagóborgar. Frv. er að upphafi samið af einum af fjármálavitringum íhaldsins, hv. 2. þm. G.-K. Í fyrra tók hæstv. fjmrh. það upp á arma sína. Svo er meiri hluti skattamálanefndarinnar, skattasérfræðingar Framsóknar og Íhalds, látinn pólera ytra borð frv. — og eftir póleringuna tekur hæstv. fjmrh. það enn upp á arma sína. Framsóknar- og Íhaldsflokkurinn virðast því einhuga um frv., og þarf þá ekki að efa, að það muni fram ganga, þó að illt sé til þess að vita.