20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (736)

10. mál, bifreiðaskattur

Magnús Jónsson:

Ég stend upp vegna þess, að hv. þm. Ísaf. virtist draga þá ályktun af því, að enginn virtist ætla að taka til máls um þetta frv. í fyrstu, að allir flokkar væru sammála um það. (HG: Tveir flokkar). Já, það má gjarnan vera.

Þessu vildi ég ekki láta ómótmælt. Ég fyrir mitt leyti hefi óbreytta skoðun á þessum bílskatti, hvaða formi sem hann svo er búinn. Annars virtist mér hv. m. Ísaf. tala eins og afbrýðissamur eiginmaður, þegar hann var að tala um afskipti hv. 2. þm. G.-K. af þessu máli. Það var alveg eins og hv. þm. Ísaf. væri hræddur um, að „Framsókn“ hans væri að fjara yfir til Sjálfstæðisflokksins úr þessu þokkasæla hjónabandi við hann. Er þá ekki hv. þm. enn búinn að komast eftir því, hversu lauslát þessi kona hans er? hún sem er ýmist í rúmi hjá sjálfstæðismönnum eða jafnaðarmönnum. Framsókn fylgir skoðun okkar sjálfstæðismanna í skattamálum t. d. en jafnaðarmönnum í skoðun þeirra á vinnudómi, einkasölum og fjáreyðslum, og mun hið síðasttalda ekki hvað sízt hafa leitt til þess, að þessir flokkar tóku saman.

Eins og ég áður lýsti yfir, hefir skoðun mín í þessu máli ekki breyzt, og get ég þó ekki neitað því, að frv. er að forminu till aðgengilegra nú en í fyrra, þar sem þá var um benzínskatt að ræða eingöngu. Með því að skipta skattinum eins og gert er í frv., er opnaður möguleikinn fyrir því að vernda flutningabílana. Ég get ekki fallizt á þá skattskiptingu, sem gerð er í frv., en henni er auðvelt að breyta. Og ef á að hafa þennan skatt á annað borð, legg ég til, að þungaskattinum verði haldið, en hinum skottunum verði breytt svo, að skattarnir yrðu nokkurnveginn jafnir í útkomunni. Ég fæ ekki skilið, að þm. vilji fara að hækka skattinn á flutningsbílunum, þar sem flutningskostnaður með þeim er óhæfilega mikill fyrir, og a. m. k. furðar mig á því, ef fulltrúar Suðurlandsundirlendisins vilja ganga inn á að íþyngja kjósendum sínum með þessu móti.

Hv. þm. Borgf. gat þess, að það næði ekki nokkurri átt að láta báta og flugvélar greiða skatt til vegaviðhalds. Ég verð nú að segja það, að það er ekki meira vit í því að láta bíla, sem aldrei koma út fyrir Reykjavík, greiða skatt til vegaviðhalds, heldur en þó að bátum og flugvélum sé gert að greiða hann. En þetta sýnir, hvað þessi stefna, að skatta bíla til vegaviðhalds, kemur misjafnlega niður. Það eru ef til vill þolandi einhverjir skattar, en þeir verða að vera lagir.