08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (746)

14. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Af nál. á þskj. 236 sést, að aðeins fjórir hv. nm. hafa skrifað undir það, og einn af þeim með fyrirvara, sem hann mun nánar gera grein fyrir. Um afstöðu fimmta nm. er mér ekki kunnugt.

Um málið er í rauninni fremur fatt að segja á þessu stigi þess. Stjórnarráðið hefir sent n. svör sveitarstjórna, milli 10 og 20 talsins, sem hafa borizt síðan frv. var lagt fyrir, og um þau svör er það að segja, að yfirleitt eru þau meðmælt frv. í höfuðdráttum, en þó fylgja aths. um einstök atriði frv. N. hefir nú athugað þessar till. og aths. og af þeim eru aðeins tvær, sem n. hefir þótt ástæða til að taka til greina, og flytur brtt. þar að lútandi.

Brtt. við 8. gr. felur það í sér, að lausafjártryggingar skuli ekki falla undir hina gagnkvæmu ábyrgð, sem ákveðin hefir verið bæði á fasteignatryggingum og lausafjártryggingum eftir lögunum. Gert er ráð fyrir, að lausafjártryggingar geti aukizt að nokkrum mun, ef afnumdar verða þær takmarkanir, sem þeim hafa verið settar. Er til þess ætlazt, að iðgjöld og iðgjaldasjóður þess flokks geti út af fyrir sig staðizt áhættuna, enda má telja hina gagnkvæmu ábyrgð frekar form en virkileika; er og erfiðara að framkvæma hana gagnvart lausafé í frjálsri tryggingu en gagnvart fasteignum í skyldutryggingu.

Önnur brtt. er við 12. gr., um það, að gr. falli niður. Í þeirri brtt. felst það, að fella niður það ákvæði núgildandi laga, að tjón, sem eigi nemur 30 kr., verði ekki bætt, og sé tjónið 200 kr. eða meira, skuli draga 30 kr. frá brunabótum. Þetta er smávægilegt atriði, en þó óviðkunnanlegt að gera þennan smásmuglega frádrátt á brunabótunum.

Menn munu taka eftir því, að meiri hl. n. ber ekki fram neina till. um fulltrúaráð, sem svo mikið var talað um í fyrra, og það er af því, að meiri hl. gat ekki orðið sammála um, að veruleg ástæða væri til þess.

Í umsögnum sveitastjórnanna kemur fram, að einungis ein af þeim 26, sem svör hafa sent, er á móti frv. sjálfu og þeirri tilhögun, sem það raðgerir í aðalatriðum, og hefir þess verið getið áður. Viðvíkjandi skipun fulltrúaráðs tjá 8 sveitarstjórnir sig meðmæltar því, en engin þeirra leggur áherzlu á það; 3 eru þeirri till, eindregið mótmæltar, 2 ræða um hana, en eru á báðum áttum, og 11 minnast alls ekki á hana. Það má vera, að hv. 2. þm. Reykv. hafi það í huga með sínum fyrirvara að gera till. um fulltrúaráð, en hann segir þá til um það. Koma þá ástæðurnar til þess til álita. — Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv.