26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Erlingur Friðjónsson:

Það má segja, að ekki er mikið, sem meiri og minni hl. n. ber á milli, en mér virtist þó ástæða til að gera breytingu á frv., sem mér þótti betur fara. Meiri hl. telur hættu á því, að frv. nái ekki fram að ganga, ef breyt. eru gerðar á því, en ég tel ekki háskalegt, þótt frv. fari til einnar umr. í Nd., því ekki er svo liðið á þingii5, að það verði ekki að sjálfsögðu útrætt fyrir því.

Það, sem ég vil gera breyt. á, er orðalagið í 2, gr.: „Til bókasafna skulu aðallega keyptar bækur guðfræðilegs og heimspekilegs efnis“. Auðvitað getur verið gott fyrir presta að hafa slíkar bækur sér til afnota, en almenningur mun lítil not hafa þeirra bóka. Í 2. gr. stendur, að þó megi kaupa til safnanna „almennar fræðibækur og úvals skáldrit“, en það er gert ráð fyrir því sem aukaatriði, að í þessum söfnum séu almennar fræðibækur, en ég vil gera þær jafnréttháar hinum heimspekilegu og guðfræðilegu bókum.

Gert er ráð fyrir því í 9. gr., að bókasafn prestakallsins verði „söfnuðinum að sem mestum notum“. Það virðist því vera allmikið ósamræmi í skyldum þeim, sem prestunum eru lagðar á herðar um að sjá um, að söfnuðinum verði sem mest not bókanna, ef binda á hendur þeirra, sem bækurnar kaupa, aðallega við kaup bóka heimspekilegs efnis. Fyrir því vil ég leggja áherzlu á, að almennar fræðibækur verði sérstaklega keyptar til safnanna. Sagt er í 2. gr., að bókasöfnin megi taka við bókum að gjöf, hvers efnis sem eru.

Ég vil, að þessu sé sleppt, því ekki er þörf á að taka það fram í lögum, því að sjálfsögðu hafa bókasöfnin rétt til að þiggja bókagjafir, ef þeirra er kostur, og rétt til að hafna þeim gjöfum, ef rétt þykir að gera það.

Í 1. málsgr. 4. gr. er talað um, að kostnaður við störf bókanefndar greiðist af bókakaupafé. Ég flyt brtt. þess efnis við þetta, að bókanefnd starfi kauplaust, en útlagður kostnaður við starf nefndarinnar greiðist af bókakaupafé. Orðalag frv. gæti skilizt þannig, að bókanefnd eigi að fá eitthvert kaup, en ég tel enga ástæðu til, að svo sé.

Þá er brtt. við síðustu málsgr. sömu greinar. Þar er sagt, að bókasöfn afskekktra prestakalla gangi fyrir öðrum um styrkveitingar. Ég tel ekki rétt að orða málsgr. þannig, því að sjálfsögðu er rétt, að styrkur sé aðallega veittur prestaköllum, þar sem ekki eru fyrir bókasöfn, sem prestur eða söfnuður getur haft til afnota. En það þarf ekki að fara saman, að prestaköll séu afskekkt og að þau skorti bókakost. Grímsey mun vera afskekktasta prestakall á okkar landi, en þar er mjög vandað bókasafn. Með tilliti til þessa tel ég nauðsyn á að gera þessa breyt. á 4. gr.

Ég hygg þess enga þörf að fara fleiri orðum um þessar brtt. Ég býst við, að hv. dm. skilji, hver er tilgangur minn með því að flytja þær, því að hann er sá, að bæta úr því, sem ég tel galla á frv. Að öðru leyti get ég fylgt frv., því að jafnvel þótt ég hefði frekar kosið, að þau héruð væru almennt styrkt til þess að koma upp bókasöfnum, sem ekki eiga þau fyrir, heldur en að binda þetta sérstaklega við prestana, þá viðurkenni ég nauðsyn þess, að bætt sé úr bókaþörf þeirra, og ef till. mín um að þessum styrk verði aðallega veitt þangað, sem engin bókasöfn eru fyrir, verður samþ., get ég vel fylgt frv. fram.