26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (765)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil þakka meiri hl. fjhn. fyrir afgreiðslu hans á þessu máli.

Frv. þetta hefir verið rækilega undirbúið, og þá fyrst og fremst af mþn. í skattamálum. Hefir sú n. lagt mjög mikið verk í þetta mál. Þar að auki hefir frv. verið athugað af tollstjóranum í Reykjavík og fjármálaráðuneytinu. Mun því óhætt að segja, að undirbúningur frv. sé eins góður og hægt er.

Það þótti réttara að fara þá leið, sem hér er farin í þessu frv., að láta allt heita verðtoll, heldur en að hafa tvennskonar tolla eins og undanfarið, vörutoll og verðtoll. Ég sé þó enga ástæðu til að fara út í málið í heild sinni eða stefnu þess.

Það er öllum vitanlegt, að ríkissjóður, með öllum þeim gjöldum, sem á honum hvíla, verður að fá svo arðberandi tekjur, að hann geti fullkomlega staðið í skilum. Og ef farið er að rýra þetta frv., þá má búast við því hvenær sem er, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi ekki fyrir gjöldum.

Ég skal ekki fara að deila neitt við hv. minni hl. fjhn. um stefnur í tolla- og skattamálum, enda er búið að ræða það talsvert áður. Ég vil aðeins taka það fram, að ég get fallizt á þær brtt., sem meiri hl. n. flytur. Þær brtt. við frv., sem minni hl. og hv. þm. Ísaf. bera fram, get ég ekki fallizt á, því að þær myndu rýra tekjur ríkisins svo stórkostlega, ef þær yrðu samþ., að við það væri ekki hægt að una.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Ég óska þess, að það fái afgreiðslu og að sem minnstar breyt. verði gerðar á því. Brtt. meiri hl. fjhn. raska ekki efni frv. í heild, og er ég þeim því ekki mótfallinn.