26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (769)

5. mál, verðtollur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ég býst við, að það komi deildinni ekki á óvart, þó minni hl. lýsi óánægju sinni yfir afstöðu meiri hl. um þetta mál, sem liggur fyrir. Þessi ágreiningur hefir svo oft verið ræddur, að ég sé ekki, að þörf sé á að taka upp almennar umr. um þann ágreining nú, enda læt ég mér í lettu rúmi liggja, þótt minni hl. lýsi óánægju sinni. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á, að fallinn er grundvöllurinn fyrir till. minni hl. og hv. þm. Ísaf., þar sem vitanlegt er orðið, að þingið muni ekki fallast á þær till., sem hv. þm. Ísaf. hefir komið fram með til að hamla á móti þeirri tekjurýrnun, sem af till. hans og minni hl. myndi leiða. — Bæði frsm. minni hl. og hv. þm. Ísaf. hafa getið þess hér í d., að till. á þskj. 50 myndi valda lækkun, sem næmi nál. 1600 þús. kr., eða rúml. 11/2 millj. kr. Auk þess er brtt. minni hl. á þskj. 168. Ég hefi reynt eftir innflutningsskýrslum frá 1928 að gera mér grein fyrir, hve mikil lækkun hlytist af, ef gengið væri inn á þessa till., og hefir mér reiknazt, að það yrði nál. 200 þús kr., svo að samtals eru það 1800 þús. kr. nú er sýnilega ekki hægt að ganga að till., nema hægt sé að sýna, að ríkið geti misst svo miklar tekjur. Það var samhljóða álit okkar allra nm. í mþn., að við sæjum ekki, að fært væri að lækka tekjur ríkissjóðs í heild sinni. Ef þingið lítur líkt á þetta, þá getur till. minni hl. ekki komið til álita. Hv. frsm. minni hl. fann það að till. frv. um einstakar vörur, að í þeim fælist verndartollastefna. Hvað þessu viðvíkur, þá er það og hefir verið deilumál víðast um heim. Og eins og hv. þm. Borgf. hefir tekið ýtarlega fram, þá virðist svo, sem verðtollsstefnan sé að ryðja sér til rúms, sú stefna, að vernda innlenda framleiðslu gegn ásókn samskonar útlendrar framleiðslu.

Við höfum að vísu ekki mikinn iðnrekstur hér á landi, en það má þó teljast réttmætt að vernda hann í samkeppninni við samskonar erlendan iðnað. Jafnréttmætt er, að aðrar framleiðsluvörur landsins njóti nokkurrar verndar í samkeppninni við samskonar erl. framleiðsluvörur. Auk þess má benda á, að með því móti að efla þannig innlenda framleiðslu og iðnað, þá veitir það stöðugri atvinnu í landinu en ella, og ætti það að vera kostur, en ekki ókostur, í augum jafnaðarmanna sem annara. (HV: Á hvers kostnað?). Það yrði til hagsmuna fyrir heildina, — en annars getur hv. þm. eflaust fengið orðið á eftir. — Ef hvergi væri verndartollur, þá mætti tala um það, að við skyldum ekki verða fyrstir til að taka hann upp, en ég vil benda á, að það er eina vörnin, sem hægt er að koma við gegn erfiðleikum þeim, sem tollvernd annara þjóða veldur um erfiðleika á sölu okkar framleiðsluvara erlendis. Alkunnugt er um fisktollinn í Suðurlöndum og kjöttollinn í Noregi, þar sem við seljum okkar aðalframleiðsluvöru.

Þá vil ég benda á, að of mikið er gert úr því, hve tollarnir leggjast þungt á gjaldþol almennings. Þess ber að geta, að tollarnir eru langsamlega hæstir, og að meiri hl. þeirra fellur á óhófs- og munaðarvöru. Toll á óhófsvörur og óhófseyðslu tel ég, að telja megi einn hinn réttlatasta tekjustofn, sem til er, því þeir, sem ekki geta og ekki vilja kaupa hana, geta látið það vera, þar sem þetta er ekki nauðsynjavara eða nauðsynleg eyðsla. Þeir borgarar, sem geta og vilja kaupa slíka voru, borga þá meginhlutann, og þannig falla tollarnir þyngra á þá, sem meira gjaldþolið hafa eða viljann til óhófs og munaðar, og er það eðlilegt og réttmætt. Hvað viðvíkur hinum einstöku vörum eftir þessu frv., þá sjá menn, að þær vörur, sem taldar eru óhófsvörur, eru hæst tollaðar. Tolli á almennum þurftarvörum er hinsvegar ekki hægt að mæla bót; það er eingöngu tekjuþörfin, sem veldur því, að ekki er hægt að komast hjá að tolla þær einnig. Það má þó í sjálfu sér teljast ekki óréttmætt, að allir landsmenn leggi fram einhvern skerf til framkvæmda og opinberra þarfa, sem ríkið og sveitarfálög þurfa að halda uppi til ágóða og hagsmuna fyrir alla borgara landsins sameiginlega.

Af því að þetta er 2. umr., hafði ég ekki hugsað sér að gefa tilefni til almennra umr. um málið, en nú hefir hv. þm. Borgf. hafið umr. um málið á þeim grundvelli, að álitamál væri, hvort það væri rétt stefna í frv. að hafa verðtoll einn fyrir það, sem nú er bæði verðtollur og þungatollur. Hann gat þess ágreinings, er varð um vörutoll (þungatoll) og verðtoll, er tollurinn var fyrst á lagður 1912 sem almennur tollur. — Gagnvart því vil ég benda á það, að eigi er hægt að gera neinn samanburð á ástæðunum 1912 og nú. Þá var ekki um að ræða nema nál. 300 þús. kr. tekjur, sem afla þurfti á þessum tekjustofni, en nú nál. 3 millj., eða tífalt hærra. Þá var um að ræða jafnan toll eftir þunga varanna; það var svo óbreytt og einfalt er hugsast gat. Þá horfði málið allt öðruvísi við en nú, síðan farið var að flokka vörurnar til þungatolls í misháa tollflokka. Þá fyrst koma gallar þungatollsins verulega í ljós. Þá er komin freistingin til að telja vörurnar í röngum — lægri — tollflokki. 1920 var fyrst lagður á almennur verðtollur, en hann stóð aðeins í 11/2 ár, og er það fyrsta reynsla, sem fengizt hefir af verðtolli. Svo var verðtollur lagður á aftur 1924 (ekki 1926, sem mun vera mismæli hjá þm.). Síðan höfum við haft bæði þungat. og verðt., og hvor þessara tolla er nú orðinn margfalt hærri en þungatollurinn upphaflega var. — Báðar þessar aðferðir hafa sína galla, en sýnilegt er, að allra gallamest er að hafa báðar aðferðir, því þá höfum við galla hvorstveggja fyrirkomulagsins. Það er miklum mun einfaldara og annmarkaminna að hafa aðeins aðra aðferðina, og þá, sem annmarkaminni og réttlátari er, en það tel ég, að sé verðtollur, auk þess sem þá liggur ljósara fyrir, hve hátt eru tollaðar hinar minnstu vörutegundir.

Þar sem hv. þm. Borgf. vitnaði í álit lögreglustjóra um galla verðtolls og vörutolls 1920, þá er þess að gæta, að þá var nær engin reynsla fengin fyrir því, hvernig verðtollur reyndist. Þá höfðu menn ekki nema hugmyndir einar að byggja á; síðan 1924 hefir fengizt reynsla í þessu efni, og maður, sem allra manna mesta reynslu hefir í þessu, segir, að ekki sé meiri hætta á tollsvikum á verðtolli en þungatolli, heldur jafnvel þvert á móti. — Þessa skoðun byggir hann á margra ára reynslu á innheimtu hvorstveggja þessara tolla og staðgóðri þekkingu á þessum efnum. Hann tekur það beinlínis fram, að þegar vafi hafi verið á um rétta uppgjöf til tolls, þá hafi innkaupsreikningarnir reynzt réttari en farmskrárnar. Þessar ástæður mæla því mjög með verðtollinum — Hinsvegar gæti það ekki orðið nema með mesta óskapnaði og óréttlæti að ætla að heimta 3 millj. kr. tekjur af þungatollinum einum saman, og mundi engu síður leiða til undanbragða og tollsvika.

Ég vil að svo komnu komast hjá að fara lengra út í almennar umr. um þetta mal, enda sest nú við afgreiðslu málsins, hvert fylgi frv. hefir.