23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (780)

16. mál, eignar- og notkunarréttur hveraorku

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta frv. er ekki nýr gestur hér. Það var borið fram á þingunum 1928 og 1929 og er upphaflega samið vegna áskorana þessarar hv. þd. Full þörf hefir þótt löggjafar um þetta efni, en málið hefir ekki getað fengið afgreiðslu vegna skoðanamunar milli Nd. og Ed. um eitt atriði. Á því strandaði tvisvar, og þess vegna var frv. ekki lagt fyrir þingið 1930. En síðastl. haust talaði við mig formaður n. þeirrar, sem hafði athugað málið í þessari hv. d., allshn., og hélt hann, að með þeirri breyt., sem hann stakk upp á, mundi málið nú fá framgang.

Ég lít svo á, að þetta umþráttaða lögfræðiatriði skipti ekki mestu, heldur hitt, að fá löggjöf um þetta efni. Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn., sem hefir haft það til umr. á undanförnum þingum.