23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (786)

18. mál, samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Einar Jónsson:

mér þætti eðlilegt, að þm., sem ekki eru hnútunum kunnugir, yrðu dálítið hissa, þegar þeir bera þetta frv. saman við fjárlfrv., þar sem hætt er að veita fé til að leggja síma og brautir og byggja vita, brýr og aðrar venjul. verklegar framkvæmdir.

Þetta frv. mun því svo að skilja, að vegamálastjóri áliti, að þarna sé mest nauðsyn að hefjast handa, enda vita það allir kunnugir, að þörfin er brýn.

Ég er skyldur til að lýsa ánægju minni yfir frv. og skal geta þess, að við samþm. heldum tvo þingmálafundi, áður en við fórum að austan, á Stórólfshvoli og að Ægisíðu, og þar lýstu menn almennt fylgi við frv. Á fyrra fundinum var samþ. till., sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. hún sýnir hug fundarmanna til málsins: Í því trausti, að þær framkvæmdir, sem stjórnarfrumvarp til þessa máls gerir ráð fyrir, verði byrjaðar þegar á næsta vori og samgöngum og landi borgið í framtíðinni með því, lætur fundurinn ánægju sína í ljós yfir því, að nú sé þetta þýðingarmikla samgöngu- og fyrirhleðslumál loks komið á góðan rekspöl, — og skorar á þingmenn kjördæmisins að styðja landsstjórnina í því að fá heimild hjá næsta Alþingi til að taka inn á fjáraukalög 1931 nauðsynlega fjárhæð til framkvæmda“. Fundarmenn undruðust reyndar dálítið þennan stórhug hjá hæstv. stj., eftir það sem menn höfðu heyrt um fjárhaginn nú: Þeir tóku þó frv. í alvöru, en þótti samt vissara að fá skýlaus loforð um, að hafizt yrði handa á næsta vori, eins og till. ber með sér.

Menn hafa skipzt nokkuð í tvo flokka þar eystra. Annarsvegar eru þeir, sem vötnin eyðileggja mest fyrir, og það eru einkum Fljótshlíðingar, en samgöngur þeirra hindra vötnin minna. Hinsvegar eru þeir, sem hugsa aðallega um lausn samgöngumálsins, en það eru Landeyingar og aðrir í austurhluta sýslunnar, auk þess er Skaftfellingar eiga þar og mikið í húfi. Hér má segja, að farinn sé millivegur, sem flestir munu telja hyggilegan og sætta sig við. Og ekki eru menn að telja eftir það, sem þeir eru skyldaðir til að leggja af mörkum — þótt margir eigi erfitt með það, — ef þeir aðeins geta. Þótt kjörin séu raunar goð her, ef þau eru t. d. borin saman við þau, sem Flóamenn og Skeiða hafa sætt, verður að gæta þess, að binda engum þær byrðar, sem hann fær ekki undir risið. Og þar sem hér er aðallega að ræða um samgöngumál og skemmdir ófærra vatna, þá er það skylda ríkissjóðs að leggja fram meginkostnaðinn.

Ég vildi fá vissu mína fyrir því, að Rangæingum sé gefin trygging fyrir, að verkið verði hafið í vor. Því að sé aðeins verið að sýna okkur frv. og eigi svo að bíða með framkvæmdirnar, þá er ekkert unnið. Það er undir sannleik og drengskap hæstv. stj. komið, hvort hún stendur við það, sem hún hér lofar. — Náttúrlega má ég ekki ergja hæstv. stj. né ætla henni annað en bezta vilja á verkinu.

Mér er vitanlega ánægja að leggja allar upplýsingar, sem ég get gefið, fram fyrir hv. samgmn., sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, ef óskað yrði, og vænti hins bezta frá allra hálfu, er um málið fjalla.