23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (788)

18. mál, samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Jón Ólafsson:

Ég vil leyfa mér að benda væntanlegri hv. n. á það, að hvað snertir niðurjöfnunarakvæði þessa frv., þá er það ekkert takmarkað, hve miklu verður jafnað niður á þá jarðeigendur, sem eiga að njóta þessara hlunninda. Gengur þetta svo langt, að hætt yrði við, að bændur yrðu að setja jarðir sínar að veði, en það myndi geta leitt til þess, að sumir þeirra kæmust á vonarvol. Finnst mér þetta vel þess vert, að hv. n. taki það til athugunar, svo að bændum geti ekki stafað nein hætta af því, ef þessi mannvirki yrðu gerð.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál að sinni, þar sem það á eftir að fara til nefndar. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er komið fram, þar sem málið er hið nauðsynlegasta fyrir framtíðina.